Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, náði í gær stórum áfanga á ferlinum þegar hann lék með Viking gegn Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni.
Birkir lék þar sinn 400. deildaleik á ferlinum og varð með því 37. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi til að ná þeim áfanga.
Birkir er Akureyringur að upplagi, sonur Bjarna Sveinbjörnssonar sem er markahæsti leikmaður Þórs frá upphafi í efstu deild. Birkir lék þó með KA í yngri flokkunum en fjölskyldan flutti til Noregs þegar Birkir var 11 ára og þar gekk hann til liðs við Figgjo, lítið félag í bænum Sandnes, skammt frá Stavanger, og lék þar með yngri flokkunum til 17 ára aldurs.
Þá færði hann sig um set yfir í nágrannaborgina Stavanger og til Viking í úrvalsdeildinni. Þar fékk hann sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu í lok tímabilsins 2005 og spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn undir stjórn Englendingsins gamalkunna Roy Hodgsons.
Birkir kom síðan af alvöru inn í lið Viking frá og með tímabilinu 2006 og lék með liðinu til ársloka 2011, að undanskildu árinu 2008 þegar hann var í láni hjá Bodö/Glimt. Birkir lék á þessum árum 124 leiki í norsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 22 mörk.
Standard Liege í Belgíu keypti Birki af Viking í janúar 2012. Hann lék 16 leiki í A-deildinni í Belgíu til vorsins en var síðan lánaður til Pescara í ítölsku A-deildinni tímabilið 2012-13.
Pescara keypti Birki af Standard sumarið 2013 en eftir einn leik með liðinu í B-deildinni í byrjun tímabils fór hann til Sampdoria í A-deildinni og var í eigu beggja félaganna tímabilið 2013-14.
Birkir sneri aftur til Pescara fyrir tímabilið 2014-15 og var þann vetur fyrirliði liðsins í ítölsku B-deildinni þar sem hann skoraði 12 mörk í 39 leikjum.
Basel í Sviss keypti Birki af Pescara í júlí 2015 en hann hafði áður verið orðaður við Torino á Ítalíu og Leeds á Englandi. Birkir varð svissneskur meistari með Basel árið 2016 og lék með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu um haustið en eftir hálft tímabil þar í viðbót var hann seldur til enska félagsins Aston Villa í janúar 2017.
Birkir spilaði með Villa í ensku B-deildinni í tvö og hálft ár, eða til sumarsins 2019. Hann fór þaðan til Al-Arabi í Katar á skammtímasamningi seint á árinu 2019 en samdi síðan við Brescia í ítölsku A-deildinni í janúar 2020.
Birkir lék í hálft annað ár með Brescia, seinna tímabilið í B-deildinni, og samdi síðan við Adana Demirspor í tyrknesku úrvalsdeildinni í ágúst 2021.
Eftir rúmlega hálft annað ár í Tyrklandi gekk Birkir til liðs við Viking í Noregi á ný, eftir rúmlega ellefu ára fjarveru, og samdi við félagið út yfirstandandi tímabil.
Flestir deildaleikir Birkis eru í Noregi, 129 talsins en hann á að baki 118 deildaleiki á Ítalíu, 50 á Englandi, 41 í Sviss, 41 í Tyrklandi, 16 í Belgíu og 5 í Katar. Hann er næstleikjahæsti Íslendingurinn í ítölsku A-deildinni með 51 leik fyrir Pescara, Sampdoria og Brescia.
Birkir er annar Íslendingurinn, á eftir Gylfa Þór Sigurðssyni, til að spila 400 deildaleiki án þess að leika nokkurn tíma deildaleik með íslensku félagsliði. Hann hefur skorað 68 mörk í þessum 400 leikjum, þar af 23 í Noregi, 20 á Ítalíu og 14 í Sviss.
Birkir, sem er leikjahæsti landsliðsmaður Íslands í karlaflokki frá upphafi, er þriðji Íslendingurinn á þessu ári sem nær 400. deildaleiknum, á eftir Viðari Erni Kjartanssyni og Matthíasi Vilhjálmssyni. Af þeim 37 sem hafa nú spilað 400 leiki hafa fjórir spilað meira en 500 leiki en leikjamet Arnórs Guðjohnsens er 523 leikir.