Birkir náði stórum áfanga

Birkir Bjarnason er í hópi reyndustu knattspyrnumanna Íslands með 400 …
Birkir Bjarnason er í hópi reyndustu knattspyrnumanna Íslands með 400 deildaleiki og 113 landsleiki. Ljósmynd/Robert Spasovski

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, náði í gær stórum áfanga á ferlinum þegar hann lék með Viking gegn Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni.

Birkir lék þar sinn 400. deildaleik á ferlinum og varð með því 37. íslenski knattspyrnumaðurinn frá upphafi til að ná þeim áfanga.

Birkir er Akureyringur að upplagi, sonur Bjarna Sveinbjörnssonar sem er markahæsti leikmaður Þórs frá upphafi í efstu deild. Birkir lék þó með KA í yngri flokkunum en fjölskyldan flutti til Noregs þegar Birkir var 11 ára og þar gekk hann til liðs við Figgjo, lítið félag í bænum Sandnes, skammt frá Stavanger, og lék þar með yngri flokkunum til 17 ára aldurs.

Þá færði hann sig um set yfir í nágrannaborgina Stavanger og til Viking í úrvalsdeildinni. Þar fékk hann sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu í lok tímabilsins 2005 og spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn undir stjórn Englendingsins gamalkunna Roy Hodgsons.

Birkir kom síðan af alvöru inn í lið Viking frá og með tímabilinu 2006 og lék með liðinu til ársloka 2011, að undanskildu árinu 2008 þegar hann var í láni hjá Bodö/Glimt. Birkir lék á þessum árum 124 leiki í norsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 22 mörk.

Standard Liege í Belgíu keypti Birki af Viking í janúar 2012. Hann lék 16 leiki í A-deildinni í Belgíu til vorsins en var síðan lánaður til Pescara í ítölsku A-deildinni tímabilið 2012-13. 

Birkir Bjarnason í leik með Sampdoria í ítölsku A-deildinni.
Birkir Bjarnason í leik með Sampdoria í ítölsku A-deildinni. AFPANDREA LASORTE

Pescara keypti Birki af Standard sumarið 2013 en eftir einn leik með liðinu í B-deildinni í byrjun tímabils fór hann til Sampdoria í A-deildinni og var í eigu beggja félaganna tímabilið 2013-14.

Birkir sneri aftur til Pescara fyrir tímabilið 2014-15 og var þann vetur fyrirliði liðsins í ítölsku B-deildinni þar sem hann skoraði 12 mörk í 39 leikjum.

Birkir Bjarnason varð svissneskur meistari með Basel og lék með …
Birkir Bjarnason varð svissneskur meistari með Basel og lék með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. AFP/Fabrice Coffrini

Basel í Sviss keypti Birki af Pescara í júlí 2015 en hann hafði áður verið orðaður við Torino á Ítalíu og Leeds á Englandi. Birkir varð svissneskur meistari með Basel árið 2016 og lék með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu um haustið en eftir hálft tímabil þar í viðbót var hann seldur til enska félagsins Aston Villa í janúar 2017.

Birkir Bjarnason og Jón Daði Böðvarsson í leik Aston Villa …
Birkir Bjarnason og Jón Daði Böðvarsson í leik Aston Villa og Reading í ensku B-deildinni. Ljósmynd/@Aston Villa

Birkir spilaði með Villa í ensku B-deildinni í tvö og hálft ár, eða til sumarsins 2019. Hann fór þaðan til Al-Arabi í Katar á skammtímasamningi seint á árinu 2019 en samdi síðan við Brescia í ítölsku A-deildinni í janúar 2020.

Birkir lék í hálft annað ár með Brescia, seinna tímabilið í B-deildinni, og samdi síðan við Adana Demirspor í tyrknesku úrvalsdeildinni í ágúst 2021. 

Birkir Bjarnason lék í þrjá mánuði með Al-Arabi í Katar.
Birkir Bjarnason lék í þrjá mánuði með Al-Arabi í Katar.

Eftir rúmlega hálft annað ár í Tyrklandi gekk Birkir til liðs við Viking í Noregi á ný, eftir rúmlega ellefu ára fjarveru, og samdi við félagið út yfirstandandi tímabil.

Flestir deildaleikir Birkis eru í Noregi, 129 talsins en hann á að baki 118 deildaleiki á Ítalíu, 50 á Englandi, 41 í Sviss, 41 í Tyrklandi, 16 í Belgíu og 5 í Katar. Hann er næstleikjahæsti Íslendingurinn í ítölsku A-deildinni með 51 leik fyrir Pescara, Sampdoria og Brescia.

Birkir er annar Íslendingurinn, á eftir Gylfa Þór Sigurðssyni, til að spila 400 deildaleiki án þess að leika nokkurn tíma deildaleik með íslensku félagsliði. Hann hefur skorað 68 mörk í þessum 400 leikjum, þar af 23 í Noregi, 20 á Ítalíu og 14 í Sviss.

Birkir, sem er leikjahæsti landsliðsmaður Íslands í karlaflokki frá upphafi, er þriðji Íslendingurinn á þessu ári sem nær 400. deildaleiknum, á eftir Viðari Erni Kjartanssyni og Matthíasi Vilhjálmssyni. Af þeim 37 sem hafa nú spilað 400 leiki hafa fjórir spilað meira en 500 leiki en leikjamet Arnórs Guðjohnsens er 523 leikir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert