„Hugarfarið þarf að breytast“

Barátta um boltann í Garðabænum í kvöld.
Barátta um boltann í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, sagðist í samtali við mbl.is ekki vera ánægður með hvernig sínir leikmenn mættu til leiks eftir 3:0-tap fyrir Stjörnunni í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld.

„Ég var ekki ánægður með fyrri hálfleikinn, við mættum til leiks fullar af efasemdum um það hvort við gætum náð í úrslit hérna í kvöld. Ég veit ekki af hverju það var en svona hugarfar er ekki í boði, við þurfum að trúa á okkur sjálf frá fyrstu mínútu. Við komum mun grimmari til leiks í seinni hálfleik og spiluðum mun betur. Ég var mjög ánægður með seinni hálfleikinn en afar ósáttur með fyrri hálfleikinn.“

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur.
Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Keflavík kom inn í leikinn eftir tvo sigurleiki í röð, gegn Selfossi í deildinni og Þór/KA í Mjólkurbikarnum. Það var ekki að sjá á liðinu í dag að það væri með mikið sjálfstraust. Glenn sagðist hreinlega ekki vita hver ástæðan fyrir því væri.

„Ég veit ekki hvort við höldum að við séum lítið lið sem á ekki möguleika gegn liði eins og Stjörnunni. Ég sagði við stelpurnar að við værum komnar hingað til að gefa þeim leik en svo var ekki. Hugarfarið þarf að breytast og það mun gerast hægt og rólega.“

Keflavík er í 7. sæti deildarinnar með sjö stig eftir sex leiki. Aðspurður hver markmið Keflvíkinga fyrir sumarið væru svaraði Glenn:

„Okkar markmið er að mæta í hvern einasta leik og reyna okkar besta. Við gerum okkar besta og sjáum hvert það skilar okkur í lok tímabilsins.“

Deildin er einstaklega jöfn í byrjun móts og hefði sigur í kvöld komið Keflavík upp í þriðja sæti deildarinnar. Glenn segir að deildin sé betri heldur en í fyrra.

„Á hverju tímabili verður deildin sterkari og sterkari. Gæðin verða meiri og leikmenn betri. Hún er mjög spennandi og það er mjög skemmtilegt fyrir áhorfendur að allir leikir séu óútreiknanlegir, það geta allir unnið alla í þessari deild.“'

Vera Varis, markvörður Keflavíkur, átti frábæran leik í kvöld og það var henni að þakka að ekki fór verr fyrir gestina. Glenn var ánægður með hana.

„Hún er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur, við treystum á hana og við búumst við frammistöðu frá henni í hverjum leik. Í hennar stöðu er stöðugleiki mjög mikilvægur og ég er mjög ánægður með hvernig hún hefur verið að spila undanfarið og sérstaklega í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert