Lagði upp öll mörkin: Eins gott

Agla María Albertsdóttir lagði upp öll þrjú mörk Breiðabliks á …
Agla María Albertsdóttir lagði upp öll þrjú mörk Breiðabliks á Selfossi í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Það er geggjað að koma á þennan útivöll og vinna leikinn. Það var gaman að komast á gott gras, þetta er örugglega besti grasvöllurinn á landinu eins og staðan er núna en hann var samt frekar stamur og ansi þungur,“ sagði Agla María Albertsdóttir, sem lagði upp öll mörk Breiðabliks í 3:0-sigri á Selfossi í Bestu deildinni á Selfossi í kvöld.

„Þetta var mjög góður sigur. Við lögðum upp með það að byrja af krafti. Það getur verið erfitt að þurfa að bíða eftir markinu á móti Selfossi, sérstaklega á þessum velli, þá getur þetta farið í einhver læti. Þannig að það var frábært að komast yfir snemma. Þetta er líka næst síðasti alvöru útileikurinn, þar sem við þurfum að fara út á land, þannig að það er mjög gott að ná í þrjú stig hérna,“ sagði Agla María sem átti mjög góðan leik í kvöld.

Hún lagði upp öll mörk liðsins og var annað markið sérstaklega glæsilegt. Agla María renndi hornspyrnu út í teiginn á Andreu Rut Bjarnadóttur sem smellti boltanum í netið. 

Verð ég ekki að velja þig mann leiksins, þrjár stoðsendingar?

„Jú, það er eins gott,“ segir Agla María og hlær. „Við höfum æft þetta áður, en ekkert sérstaklega fyrir þennan leik. Það hefur ekki komið tækifæri til þess en svo var allt opið þarna í teignum þannig að það var geggjað að ná þessu og Andrea náði frábæru skoti. Bara geggjað. Annars fannst mér við bara sigla þessu örugglega heim í stöðunni 3:0. Við vorum búnar að loka þessu í fyrri hálfleik þannig að það var bara spurning um að klára seinni hálfleikinn almennilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka