Stjarnan tók á móti Keflavík í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Leikið var við flottar aðstæður í Garðabænum og urðu lokatölur 3:0 Stjörnunni í vil.
Eftir leik er Stjarnan í 3. sæti deildarinnar með 10 stig en Keflavík situr í 7. sætinu með 7 stig.
Leikurinn fór fjörlega af stað og strax á 5. mínútu leiksins komst Stjarnan yfir. Sædís Rún Heiðarsdóttir tók þá hornspyrnu sem datt inn á markteig Keflvíkinga. Eftir töluvert klafs í teignum þá náði fyrirliði Stjörnunnar, Anna María Baldursdóttir, að reka tána í boltann og lak boltinn yfir línuna. Staðan orðin 1:0 fyrir heimakonur.
Á 24. mínútu fékk Stjarnan aukaspyrnu úti hægra megin. Sædís Rún tók spyrnuna og ætlaði að senda boltann fyrir markið, spyrnan var mjög góð og náði Jasmín Erla Ingadóttir að snerta boltann inni á teignum og beina honum í markið. Stjarnan búin að tvöfalda forystu sína.
Það var síðan á 61. mínútu sem Aníta Ýr Þorvaldsdóttir skoraði frábært mark fyrir Stjörnuna. Hún fékk þá boltann fyrir utan teig og lét vaða að marki, skotið var frábært og endaði boltinn uppi í fjærhorninu. Vera Varis, markvörður Keflavíkur, átti ekki möguleika á að verja gott skot Anítu. Heimakonur komnar í 3:0.
Lítið gerðist eftir þetta og heimakonur unnu afar sannfærandi þriggja marka sigur.
Sædís Rún Heiðarsdóttir átti frábæran leik fyrir Stjörnuna og var án efa maður leiksins, hún skoraði eitt mark og lagði upp annað. Þá var Arna Dís Arnþórsdóttir mjög góð á hægri kantinum hjá heimakonum sem og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir.
Hjá gestunum var Vera Varis, markvörður liðsins, yfirburðarleikmaður í dag. Hún varði oft á tíðum mjög vel og kom í veg fyrir að tapið yrði stærra.
Næsti leikur Stjörnunnar er útileikur á móti nágrönnum þeirra í Breiðablik en Keflavík á heimaleik á móti ÍBV í næstu umferð.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu á föstudag.