Björn Sigurbjörnsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu, var heldur brúnaþungur eftir 3:0 tap gegn Breiðabliki á heimavelli í Bestu deildinni í kvöld. Fyrir vikið sitja Selfyssingar í botnsæti deildarinnar.
„Mér fannst við eiginlega ekki mæta til leiks í fyrri hálfleik, við vorum langt frá þeim og vorum ekki að mæta í þau svæði sem við viljum mæta í til að spila boltanum fram á við, þannig að þetta varð bara 'kick and run' og við vildum ekkert vera með boltann. Við fórum rólega yfir hlutina í hálfleik og mér fannst allt annað lið mæta til leiks í seinni hálfleik. Hann var fínn að mörgu leiti, það var allt annar ákafi í varnarleiknum og í sókninni fundum við okkar svæði betur, sem gekk hægt í fyrri hálfleik,“ sagði Björn í samtali við mbl.is eftir leik.
Sóknarleikur Selfoss var ekki burðugur í kvöld, sem er í rauninni saga sumarsins hjá þeim vínrauðu. Þær hafa skorað fimm mörk í sex leikjum, þar af þrjú í eina sigurleik sumarsins, gegn Tindastóli. Er sóknarleikurinn stærsti hausverkur þjálfarateymisins?
„Það er búinn að vera hausverkur hjá okkur í lengri tíma að það vantar ákveðna ákefð á síðasta þriðjungnum. Það er eitthvað sem við erum að reyna að vinna í. Það sem gerist þegar við erum að undirbúa tímabilið er að við tökum til okkar sóknarmann sem við ætlum að byggja í kringum og svo hverfur hún á braut og það krefst mikillar endurskipulagningar.
Það er bara að ganga hægt en mér finnst við samt sýna ákveðin teikn í seinni hálfleik, þar sem við erum að koma okkur í skotstöður og koma boltanum inn í teig. En það vantar að reka endahnútinn,“ segir Björn en þarna er hann að tala um bandaríska sóknarmanninn Mallory Olsson sem sagði upp samningi sínum og fór aftur heim til Bandaríkjanna eftir stutta dvöl á Selfossi í vetur.
„Það er púsl að setja saman lið á síðustu stundu þegar maður verður fyrir svona áfalli eins og við urðum fyrir í vetur. Hins vegar er deildin jöfn og það er bæði gott og vont. Við fjarlægjumst efstu sætin en það að deildin sé svona jöfn, gerir það að verkum að það er styttra upp úr botninum. En það er alveg 100% rétt að við þurfum að fara að safna fleiri stigum,“ sagði Björn að lokum.