Ánægður með karakterinn hjá Eyjamönnum

Sigurður Arnar Magnússon, lengst til hægri, fagnar einu marka ÍBV …
Sigurður Arnar Magnússon, lengst til hægri, fagnar einu marka ÍBV í kvöld ásamt liðsfélögum sínum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV fékk HK í heimsókn í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fyrir leikinn höfðu Eyjamenn tapað fimm leikjum í röð og voru komnir á botn deildarinnar.

Eyjamenn áttu hinsvegar frábæra frammistöðu á Hásteinsvelli í kvöld og sigruðu leikinn örugglega 3:0, þar sem markamunurinn var síst of stór.

Sigurður Arnar Magnússon átti frábæran leik í hjarta varnarinnar hjá heimamönnum í dag og bar fyrirliðabandið í ungu liði Eyjamanna eftir að þeirra reyndasti maður, Alex Freyr Hilmarsson, þurfti að fara útaf vegna meiðsla eftir rúmlega korters leik.

„Við erum gríðarlega ánægðir með leikinn. Þetta var rosa karakter. Það hefði verið auðvelt að fara í sjálfsvorkun þegar við vorum búnir að missa sterka pósta úr liðinu fyrir leikinn og Alex núna, einhverjir fjórir lykilmenn, en alvöru karakter í þessu, vilji og góður leikur sem við sýndum í dag. Þannig ég er gríðarlega sáttur,“ sagði Sigurður Arnar í samtali við mbl.is.

„Alex er náttúrulega frábær leikmaður svo þetta er alltaf blóðtaka. Hann hefur verið hrikalega mikilvægur fyrir okkur frá því að hann kom fyrir ári síðan. En karakterinn sem við sýndum eftir að hann fer útaf og leikurinn sem við sýndum bara frábær og við áttum þetta virkilega skilið,“ bætti hann við.

Eyjamenn hafa lekið inn mörkum það sem af er sumri og misstu sinn helsta varnarmann, Eið Aron Sigurbjörnsson, í meiðsli fyrir síðasta leik. HK-ingar sáu hinsvegar aldrei til sólar í sóknarleik sínum í kvöld.

„Það voru allir góðir. Það er mjög auðvelt að eiga góðan leik þegar allir fyrir framan mann eru gjörsamlega á sínum degi og alltaf mættir í grímuna á þeim og þá þarftu bara aðeins að lesa hvar boltinn er að fara detta og vera mættur. Þetta var mjög flott,“ sagði Sigurður Arnar.

Fyrir leikinn höfðu ÍBV, eins og áður sagði, tapað fimm leikjum í röð. Sigurður Arnar ítrekaði hinsvegar að áherslubreytingarnar fyrir leikinn í kvöld væru helst hugarfarslegar og að Eyjamenn spili bara sinn leik.

„Það voru kannski smá áherslubreytingar. Aðeins að koma í hausinn á okkur hvað við getum og svona. En ekkert einhver gríðarleg breyting. Við förum kannski að nota boltann aðeins meira og velja betur augnablikin þegar við förum. En í endann er þetta nokkurn veginn það sama,“ sagði Sigurður Arnar, fyrirliði Eyjamanna í kvöld, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert