„Boltinn kom ekki nálægt höndinni á mér“

Theodór Elmar Bjarnason í baráttu við Birki Eyþórsson í kvöld.
Theodór Elmar Bjarnason í baráttu við Birki Eyþórsson í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Theodór Elmar Bjarnason skoraði tvö af þremur mörkum KR sem gerði jafntefli við Fylki, 3:3, í 10. umferð Bestu deildar karla nú í kvöld.

Eftir leikinn er KR ennþá í 8. sæti deildarinnar með 11 stig líkt og Fylkir sem situr í sjöunda sæti á betri markatölu.

„Við vildum fá þrjú stig í dag og við byrjuðum mjög vel. Það er þarna 25 mínútna kafli sem eyðileggur þennan leik fyrir okkur í lokin á fyrri hálfleik og byrjun á þeim seinni.

Annars vorum við með yfirhöndina í leiknum. Við hreinlega gáfum þessi þrjú mörk í leiknum og það er mjög pirrandi að gefa þrjú mörk í einum leik,“ sagði Theodór Elmar í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður út í hvað leikmenn KR taki með sér úr þessum leik sagði hann:

„Það jákvæða við þennan leik er að við erum að gera miklu betur núna heldur en við vorum að gera undanfarið. Við erum núna taplausir í fjórum leikjum í röð og það er mjög jákvætt.”

Spurður út í seinna mark Theodórs, þar sem stuðningsmenn og leikmenn Fylkis vildu fá hendi dæmda hafði Theodór Elmar þetta að segja:

„Kennie [Chopart] kemur bara með fyrirgjöf og hann [Axel Máni Guðbjörnsson] reynir að hreinsa og boltinn fer í andlitið á mér og inn í markið. Boltinn kom ekki nálægt höndinni á mér.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert