Þór/KA og FH mættust í lokaleik 6. umferðar Bestu-deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Leikið var á Þórsvellinum á Akureyri í einmuna blíðu og 20 gra´ðu hita. Fyrir leik var Þór/KA í 5. sæti með níu stig. FH var í 9. sæti með fjögur stig.
Í fremur daufum leik þá voru það FH-ingar sem unnu sanngjarnan 2:0-sigur. FH fór upp um eitt sæti með sigrinum og er núna með sjö stig.
Heimakonur áttu leikinn fyrstu mínúturnar og voru í stórsókn fyrsta kortérið. Þær sköpuðu sér nokkur hálffæri og sjö hornspyrnur sem ekkert kom út úr. Næst komst Þór/KA að skora þegar Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skaut í þverslána beint úr hornspyrnu.
Smám saman jafnaðist leikurinn og FH-liðið fór að færa sig framar og skila inn einni og einni góðri sókn. Eftir rúman hálftíma uppskáru Hafnfirðingar mark og var það ansi laglegt. Mackenzie George fékk boltann í vítateignum vinstra megin. Hún átti lúmskt skot og boltinn skoppaði af stönginni hægra megin beint út í vítateiginn. Þar var Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir á hárréttum stað og hún afgreiddi boltann á lofti í mitt mark Þórs/KA.
Heimakonur virtust slegnar út af laginu við mark FH og síðasta kortérið í fyrri hálfleik var fátt um fína drætti hjá báðum liðum.
Í fyrri hluta seinni hálfleiks var sama uppi á teningnum og hvorugt lið náði að skapa sér nokkuð af viti. Heimakonur voru alveg bitlausar og FH var líklegra liðið til að skora. Shaina Ashouri átti m.a. skot í stöng.
Heimakonur spýttu loks í lófana á lokamínútunum og reyndu að koma inn einu marki. FH hékk hins vegar á sínu eins og hundur á roði og í blálokin skoraði FH svo aftur. Sara Montoro kom boltanum í markið eftir laglega sendingu inn fyrir vörn Þórs/KA.
Verður að segjast að lið Þórs/KA var afar dapurt í leiknum fyrir utan fyrstu mínúturnar. FH-ingar unnu sig svo inn í leikinn og voru yfir í baráttunni alls staðar á vellinum og ekki síst eftir að þeir skoruðu fyrra mark sitt.
Mackenzie George var ávallt hættuleg og miðjumenn FH voru einnig góðir. Hjá Þór/KA var Agnes Birta Stefánsdóttir áberandi best. Hún var örugg í vörninni og föst fyrir og sú eina sem virtist algjörlega tilbúin í baráttuleik.