Fjölnir og Afturelding halda sínu striki

Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði fyrir topplið Fjölnis í kvöld.
Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði fyrir topplið Fjölnis í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Fjölnir og Afturelding unnu í kvöld góða útisigra gegn sterkum liðum 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu og eru fyrir vikið jöfn að stigum í efstu tveimur sætum deildarinnar.

Fjölnir heimsótti ÍA á Akranes og vann sterkan 2:1-sigur.

Hans Viktor Guðmundsson kom gestunum úr Grafarvogi í forystu snemma leiks áður en Guðmundur Karl Guðmundsson tvöfaldaði hana átta mínútum fyrir leikslok.

Undir blálokin minnkaði Viktor Jónsson muninn fyrir Skagamenn en lengra komust heimamenn ekki.

Afturelding heimsótti Grindavík í toppslag og vann öruggan 3:0-sigur.

Aron Elí Sævarsson kom gestunum úr Mosfellsbæ í forystu með marki úr vítaspyrnu eftir stundarfjórðungs leik.

Á 24. mínútu dró til tíðinda þegar Grindvíkingurinn Guðjón Pétur Lýðsson fékk beint rautt spjald.

Áður en fyrir hálfleikur var úti tvöfaldaði Ásgeir Marteinsson forystuna og staðan því 2:0 í leikhléi.

Fjórum mínútum fyrir leikslok innsiglaði Elmar Kári Enesson Cogic sigur Aftureldingar.

Fjölnir er á toppnum með 13 stig, jafnmörg og Afturelding en með betri markatölu.

Grindavík, sem hafði ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum umferðunum, kemur þar á eftir með tíu stig.

Selfoss fékk nýliða Þróttar úr Reykjavík í heimsókn austur fyrir fjall og vann góðan 2:1-sigur.

Adrián Sánchez kom Selfyssingum í forystu eftir aðeins níu mínútna leik og leikmaður Þróttar varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark tólf mínútum síðar.

Snemma í síðari hálfleik fékk Oskar Wasilewski beint rautt spjald og léku Selfyssingar því einum færri það sem eftir lifði leiks.

Izaro Abella minnkaði muninn fyrir Þrótt fjórum mínútum fyrir leikslok en þar við sat.

Selfoss er eftir sigurinn í fjórða sæti 1. deildar með 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert