Jafnt í markaleik í Árbænum

Luke Rae og Birkir Eyþórsson eigast við í kvöld.
Luke Rae og Birkir Eyþórsson eigast við í kvöld. Arnþór Birkisson

Fylkir tók á móti KR í 10. umferð Bestu deildar Karla í knattspyrnu í kvöld og lauk leiknum með jafntefli, 3:3, í stórskemmtilegum leik. Leikið var á heimavelli Fylkis í Árbæ.

Fyrir leikinn voru liðin jöfn í 7. og 8. sæti deildarinnar, bæði með 10 stig. Bæði liðin unnu leiki sína í 9. umferð og ætluðu að halda sigurgöngunni áfram.

Leikurinn hófst af miklum krafti þar sem liðin skiptust á hálffærum. Strax á fjórðu mínútu leiksins lentu Finnur Tómas Pálmason og Emil Ásmundsson í samstuði og þurftu á aðhlynningu að halda. Nokkrum mínútum síðar þurfti Emil að fara af velli vegna meiðsla sem hlutust af.

Á áttundu mínútu gerðust varnarmenn KR sekir um skelfileg mistök. Jakob Franz Pálsson hitti ekki boltann þegar hann ætlaði að hreinsa frá og Pétur Bjarnason stakk sér inn fyrir og vippaði boltanum yfir Aron Snæ Friðriksson í marki KR og í þverslá. Frákastinu náði Þórður Gunnar Hafþórsson og setti boltann í markið. 1:0 fyrir Fylkismenn.

Á 12. mínútu jafnaði KR metin. Ægir Jarl átti þá góða sendingu inn í teig Fylkis þar sem Jóhannes Kristinn Bjarnason skoraði með glæsilegri afgreiðslu á lofti þar sem boltinn fór upp í samskeytin fjær.

Mörkin héldu áfram að koma í fyrri hálfleik og á 19. mínútu skoraði Theodór Elmar Bjarnason fallegt vippumark eftir að Orri Sveinn Stefánsson hafði runnið í baráttu við hann.

Jöfnunarmark fyrri hálfleiks kom í uppbótartíma eftir hornspyrnu Fylkismanna. Arnór Breki Ásþórsson tók hornspyrnu sem endaði hjá Pétri Bjarnasyni. Pétur skallaði að marki en Aron Snær varði vel. Frákastið endaði hjá Nikulási Val Gunnarssyni sem afgreiddi boltann í netið af örstuttu færi. Staðan jöfn eftir fjörugan fyrri hálfleik, 2:2.

Síðari hálfleikur hófst af miklum krafti hjá Fylkismönnum sem sóttu talsvert meira fyrstu mínútur síðari hálfleiks og fengu oft á tíðum fín færi án þess að það gæfi þeim mark.

Á 64. mínútu fékk Óskar Borgþórsson stungusendingu, gaf boltann fyrir markið þar sem varamaðurinn Benedikt Daríus Garðarsson kom Fylki verðskuldað yfir, 3:2.

KR-ingar jöfnuðu metin aftur á 71. mínútu þegar Kennie Chopart gaf boltann fyrir markið. Axel Máni Guðbjörnsson reyndi að hreinsa frá en skaut boltanum í andlit Theodórs Elmars og þaðan fór boltinn í netið. Staðan orðin 3:3.

Á 75. mínútu fór aðaldómarinn Einar Ingi Jóhannsson af velli og inn á kom varadómarinn Twana Khalid Ahmed í sínum fyrsta leik í efstu deild karla.

Síðustu 15 mínúturnar sóttu KR-ingar meira og uppskáru hornspyrnur og ágætis færi, það besta kom á 78. mínutu en þá átti Jóhannes Kristinn fínt skot en yfir markið.

Lengra komust liðin ekki,  niðurstaðan 3:3 og staðan óbreytt hjá báðum liðum á stigatöflunni.

Fylkir 3:3 KR opna loka
90. mín. 4 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert