Karitas Tómasdóttir, miðjumaður Breiðabliks, slasaðist illa í viðureign liðsins gegn Selfyssingum á hennar gamla heimavelli í Bestu deild kvenna í fótbolta í gærkvöld.
Breiðablik tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum í dag. Fram kemur að Karitas hafi slitið hásin í fæti og það þýðir væntanlega að hún leikur ekki meira með liðinu á þessu keppnistímabili.
Þetta er áfall fyrir Blikaliðið en Karitas hefur verið í stóru hlutverki í liðinu síðan hún kom frá Selfyssingum fyrir tímabilið 2021. Hún á níu A-landsleiki að baki og spilaði síðast með landsliðinu gegn Tékklandi og Nýja-Sjálandi snemma á árinu 2022.