„Við áttum ekkert skilið úr þessum leik“

Atli Hrafn Andrason vinnur skallabolta í kvöld.
Atli Hrafn Andrason vinnur skallabolta í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

HK heimsótti Vestmannaeyjar í dag þar sem liðið spilaði við ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn voru HK-ingar í sjötta sæti deildarinnar með 13 stig, en höfðu tapað tveimur leikjum í röð.

HK-ingar sáu aldrei til sólar í leiknum og voru yfirspilaðir á öllum sviðum fótboltans í Vestmannaeyjum í dag. Atli Hrafn Andrason kom til HK frá ÍBV fyrir tímabilið og var því að heimsækja sinn gamla heimavöll. Hann var að vonum svekktur með slakan leik gestanna í kvöld.

„Mér fannst vel gert hjá heimamönnum að mæta bara frá fyrstu mínútu. Við gerðum það ekki og verðskuldaður sigur fyrir þá að mínu mati. Við vitum að þeir eru með kraftmikið fótboltalið. Ofan á það líka gæði. Við bara sýndum að við áttum ekkert skilið úr þessum leik. Bara upp upp og áfram,“ sagði Atli Hrafn í samtali við mbl.is.

Grasvellir eru, eins og þekkt er orðið, í minnihluta í Bestu deildinni í ár og eðlilega eru viðbrigði fyrir lið sem eru vanari gervigrasi að koma til Eyja og spila á Hásteinsvelli, sem hefur litið betur út eftir erfiðan vetur. Þess að auki var gríðarlega mikil þoka á vellinum í kvöld.

„Jú jú, það er alveg hægt að kvarta undan því [aðstæðunum], en ég held að við munum bara líta inn á við. Við vissum að þetta myndi verða erfitt og erfiðar aðstæður. Það eru engar afsakanir, þetta er jafn erfitt fyrir bæði lið. Við vorum bara ekki líkir okkur sjálfum,“ sagði Atli Hrafn.

HK-ingar voru, eins og áður sagði, undir á öllum sviðum fótboltans í kvöld. Þeir fengu hins vegar dauðafæri til að minnka muninn rétt fyrir hálfleik. Ahmad Faqa misreiknaði hins vegar flugið á boltanum eitthvað eftir frábæra aukaspyrnu Atla Hrafns, og hitti boltann mjög illa.

„2:1 er allt annað en 2:0. Við vildum skora þriðja markið en ÍBV komu bara sterkari inn í seinni hálfleikinn og lokuðu þessu með þriðja markinu. Við bara svöruðum ekki eftir það heldur. Við bara hættum og það er eitthvað sem við verðum að líta inn á við og axla ábyrgð á. Eyjamenn voru bara flottir í dag,“ sagði Atli Hrafn.

HK er í 6. sæti Bestu deildarinnar eftir tíu leiki og hafa náð í nokkur frábær úrslit. Þeir geta vel við unað eftir hrakfaraspár fyrir tímabilið.

„Flott byrjun. Þetta er þriðji tapleikurinn í röð þannig að við þurfum að byrja aftur á einföldu hlutunum og fara að gera hlutina sem við stöndum fyrir. Annars er þetta ekkert heimsendir. Við tökum okkur saman og mætum ferskir í næsta leik á móti Val. Það er góð hvíld svo það verður hörku leikur,“ sagði Atli Hrafn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert