Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir var í fantaformi í dag þegar FH vann Þór/KA 2:0 í hörkuleik á Akureyri. FH-ingar voru lengi í gang í leiknum en eftir að Hildigunnur Ýr skoraði fyrra mark liðs síns þá voru heimakonur í Þór/KA aldrei líklegar til að jafna leikinn.
Hildigunnur Ýr var kampakát eftir leik og eftir að hafa sinnt módelstörfum með stöllu sinni, Söru Montoro, þá gaf hún sér tíma í viðtal.
„Þetta var 100% baráttusigur hjá okkur í dag. Við byrjuðum ekki nógu vel en eftir svona fimmtán mínútur þá vorum við yfir í allri baráttu og það skilaði sér.“
Ég verð að segja að mér leist ekkert á ykkur í byrjun leiks. Þór/KA var í stanslausri sókn, fékk sjö hornspyrnur en þó bara eitt alvöru færi. En eftir markið þitt þá virtust þið alveg vera með leikinn.
„Það var góður karakter að vinna okkur út úr þessari daufu byrjun. Það var svo aldrei neitt annað í spilunum en að halda út leikinn og við börðumst vel fyrir þessu. Það var svo geggjað að skora annað mark í lokin og klára þetta endanlega.“
Þið voruð það lið í seinni hálfleiknum sem var að sækja og mun líklegri til að skora. Þú varst nú alveg ófeimin við að láta vaða á markið og varst ekki langt frá því að bæta við marki.
„Það hefði verið gaman að setja annað og þá hefði verið minna stress á lokamínútunum, þegar ég var komin út af. Sara kláraði þetta bara fyrir okkur.“
Var þetta fyrsta markið þitt í efstu deild?
„Nei, en þetta var fyrsta markið fyrir FH. Ég hef skorað með Stjörnunni í efstu deild en þar er ég uppalin. Ég kom í FH fyrir þetta tímabil og líkar mjög vel.“
Eins og þú nefndir áðan þá voruð þið yfir í baráttunni alls staðar á vellinum og þá sérstaklega eftir fyrra markið ykkar. Kom það þér á óvart hvað Þór/KA ógnaði ykkur lítið eftir að þið komust yfir?
„Ekki beint. Ég veit alveg hvað við getum og sérstaklega varnarlínan okkar, sem er mjög sterk og skipulögð. Það er mjög erfitt að komast fram hjá vörninni okkar. Ég hef sko alveg fundið fyrir því á æfingum. Þegar baráttan er svona yfir allan völlinn og þegar við erum í þessum gír þá er erfitt að gera eitthvað á móti okkur.“
Nú var gríðarlegur hiti úti, 20°C. Var erfitt að spila í þessum hita?
„Ég fann alveg fyrir þessu í byrjun. Svo fór að blása aðeins og það hjálpaði aðeins upp á. Það var þægilegra að hafa smá blástur.“
Þið voruð í öðru af botnsætunum fyrir þennan leik. Nú eruð þið í 7. sætinu með sjö stig og stutt í næstu lið. Sérðu fyrir þér að þið farið að safna fleiri stigum?
„Klárlega, myndi ég segja. Við erum komnar í gír og á meðan við höldum áfram svona þá getum við safnað fullt af stigum.“
Ein aukaspurning í lokin. Sá sem var líklega mest áberandi í leiknum í dag var Hlynur Eiríksson aðstoðarþjálfari ykkar. Hann var að hrópa og kalla allan leikinn og það heyrðist vel í honum. Voruð þið ekkert orðnar þreyttar á þessu?
Nú hlær Hildigunnur dátt. „Nei, það er bara peppandi að heyra í honum og ef við þurfum að heyra það frá honum þá er það bara svoleiðis. Hann er bara flottur“ sagði Hildigunnur Ýr að lokum