Stjarnan fór illa með KA, 4:0, í Bestu deild karla í knattspyrnu á Stjörnuvellinum í Garðabæ í kvöld.
Leikið var við topp aðstæður á gervigrasinu, skýjað og milt veður. Bæði lið voru lítið að skapa sér framan af leik þó Stjarnan hafi verið sterkari aðilinn.
Á 27.mínútu kom fyrsta alvöru færi leiksins þegar að Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, fékk boltann og kom sér að endalínu og sendi boltann út í teiginn á samherja sinn Eggert Aron Guðmundsson sem skaut yfir úr hörku færi.
Strax á eftir, á 29.mínútu, dró svo heldur betur til tíðinda. Ísak Andri vann boltann af varnarmanni KA, hljóp með boltann að vítateignum og sendi á Eggert Aron, vinstra meginn í teignum, sem kláraði færið vel í fjærhornið fram hjá Kristijan Jajalo í marki KA. 1:0 fyrir Stjörnuna.
Það svo rétt fyrir lok fyrri hálfleiks sem bæði lið reyndu að koma inn marki. Á 44.mínútu var mark dæmt af Ísaki Andra vegna rangstöðu en hann hafði fylgt eftir bylmingsskoti Guðmundar Baldvins.
Í uppbótartíma átti Daníel Hafsteinsson, leikmaður KA, frábæra sendingu á fjær þar sem Rodrigo var einn og óvaldaður og Spánverjinn átti laust skot á lofti sem Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunar, varði auðveldlega. Þarna hefði Rodrigo átt að gera betur.
Rétt áður en Pétur Guðmundsson dómari leiksins flautaði til hálfleiks átt Eggert Aron hörkuskot sem var varið og svo negldi Guðmundur Kristjánsson, varnarmaður Stjörnunar, boltanum yfir.
1:0 fyrir heimamenn í hálfleik, mjög sanngjörn staða.
Seinni hálfleikur fór rólega af stað en það var á 50.mínútu sem Stjarnan tvöfaldaði forystuna. Kjartan Már Kjartansson átti sendingu inní teig sem Ísak Andri kláraði snyrtilega með hælnum framhjá Jajalo í marki KA, algjört lúxus mark! 2:0 fyrir heimamenn.
KA menn reyndu hvað þeir gátu að koma sér inní leikinn og var Hallgrímur Mar Steingrímsson þeirra sprækastur, flestar sóknaraðgerðir fóru í gegnum hann en allt kom fyrir ekki.
Hilmar Árni Halldórsson, sem kom inná í hálfleik, skoraði svo þriðja mark Stjörnunar eftir að hafa fengið boltinn í teingum og skorað með góðu skoti. Í aðdragandanum hafði Adolf Daði Birgisson fallið í vítateignum eftir sendingu frá Eggerti Aroni. Stjörnumenn báðu um víti en í þann mund hrökklaðist boltinn til Hilmars Árna sem kláraði vel. 3:0 orðin staðan.
Það var svo á 82.mínútu sem annar varamaður skoraði fyrir Stjörnuna. Eggert Aron sem átti magnaðan leik, átti sprett upp völlinn og fór framhjá leikmönnum KA, sendi boltann á Emil Atlason sem kláraði færið vel, 4:0.
Þannig urðu lokatölur leiksins, stórsigur Stjörnumanna staðreynd og liðið lyftir sér upp í 10.sæti.
KA menn eru ennþá í 5ta sæti og þurfa virkilega að hugsa sinn gang ef þeir ætla að gera svipaða hluti og í fyrra.
Eggert Aron Guðmundsson og Ísak Andri Sigurgeirsson áttu stórleik í kvöld. Eggert Aron, skoraði eitt mark og lagði upp annað og var allur í öllu í sóknaraðgerðum Stjörnunar. Ísak Andri skoraði laglegt mark og átti líka eina stoðsendingu auk þess að vera virkilega sprækur á vallarhelmingi gestanna.
Einnig má nefna flottan leik hjá þeim Adolf Daða og Kjartani Má ásamt fleirum í liði heimamanna.
Hallgrímur Mar átti fínan leik hjá KA mönnum en fátt gekk upp hjá Norðanmönnum í leiknum.