Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, sagðist í samtali við mbl.is vera ánægður með karakter sinna manna eftir að Blikar komu til baka og náðu í dramatískt jafntefli gegn Víkingi R. í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld, 2:2.
„Mér fannst við fá það sem við vorum búnir að vinna inn fyrir, þótt það kom seint þá vorum við fulla stjórn á þessum leik á milli teigana. Við spiluðum í gegnum þá eins og hnífur í gegnum bráðið smjör eða eins og þeir væru svissneskur ostur, þeir voru helvíti götóttir. Þannig að það var pirrandi að hafa lent undir en við misstum ekkert hausinn. Svo ég vitni í orð sem voru látin falla hérna í síðustu umferð að ef að þessi leikur væri spilaður tíu sinnum aftur þá myndum við vinna níu sinnum og tapa einu sinni. Þannig upplifði ég þennan leik.“
Breiðablik spilar áhættusaman fótbolta og spila út frá aftasta manni. Annað mark Víkings kemur upp úr því í dag þegar Oliver Sigurjónsson rann og Nikolaj Hansen hirti af honum boltann áður en Birnir Snær Ingason skoraði. Höskuldur segir að Breiðablik sé ekkert að fara að breyta uppleggi sínu.
„Það væri skrýtið að fara að breyta einhverju núna. Þessi spilamennska er búin að skila okkur góðum árangri, Íslandsmeistaratitli, góðum árangri í Evrópu og góðum úrslitum. Þegar við förum að vera hræddir og hættum að vera hugaðir þá erum við í miklu meira veseni heldur en að einn leikmaður renni og missi boltann. Við erum ekkert að fara að vera einhver ódýr B-útgáfa af einhverjum öðrum, við erum bara trúir okkur sjálfum og það skilar okkur árangri.“
Það hefur myndast mikill rígur á milli þessara liða á undanförnum árum og segist Höskuldur vera ánægður með það, þetta séu leikirnir sem hann muni muna eftir þegar skórnir fara á hilluna.
„Þessi rígur er bara af hinu góða, þetta er gott fyrir mann sem leikmann því maður mun líta til baka og muna eftir þessum leikjum sem skipta svo miklu máli. Þetta eru geggjaðir leikir fyrir áhorfendur og við lítum á Víking sem alvöru keppinaut, ég veit ekki hvort þeir líta á okkur sem óvin því þetta var orðin fullmikil dramatík hérna áðan þegar þeir missa hausinn. Mér fannst það kristallast í lokin að það var mikil fagmennska hjá okkur en mikil geðshræring hjá þeim sem þeir virðast ekki ráða við.“
Allt varð brjálað eftir leik og var mikill hiti í mönnum. Sjálfur fór Höskuldur á eftir leikmanni Víkings inn í búningsklefa en hann vissi reyndar ekki alveg afhverju.
„Þeir fara eitthvað að dólgast í okkar mönnum og missa algjörlega hausinn. Þeir vaða í einhvern sem lá hérna þannig manni var heitt í hamsi, ég var sjálfur að elta einhvern inn í klefa og ég veit ekki einu sinni afhverju. Ég man eftir þessu þegar Svartfellingarnir í Buducnost Podgorica komu hérna og voru með svipaða stæla, þetta var keimlíkt því þannig þetta var ekkert nýtt fyrir okkur.“
Breiðablik spilar gegn FH í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla á mánudag og segir Höskuldur að Blikar ætli sér alla leið í bikarnum í ár.
„Við ætlum að fara lengra en í fyrra í bikarnum og vinna hann. FH hafa verið flottir og hafa safnað sér fullt af stigum í deildinni. Maður sér það bara á síðustu leikjum að þeir eru ungir, sprækir, hættulegir og kaótískir þannig við þurfum að gjöra svo vel að taka þá mjög alvarlega. Þannig það verður nóg af salttöflum og Unbroken á næstu dögum svo við verðum klárir í þann leik.“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson að lokum.