Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals var svekktur með 1:1 jafntefli á heimavelli gegn FH í 10 umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu.
“Svekkjandi að ná ekki að vinna þennan leik. Sérstaklega eins og leikurinn spilaðist. Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik. Klúður að fá þetta jöfnunarmark á okkur í lok fyrri hálfleiks. Það var það eina sem þeir gerðu í fyrri hálfleik.”
Í síðari hálfleik missa FH-ingar Jóhann Ægir útaf með beint rautt spjald. Hvað veldur því að Valur nær ekki að skora eftir að hafa stjórnað leiknum algjörlega fram að því?
„Í seinni hálfleik nýttum við stöðuna alls ekki vel. Vorum manni fleiri í rúman hálftíma en þeir vörðust gríðarlega vel og við spiluðum alltof hægt og snertum boltann of mikið. Valur á að vera með það mikil gæði að við eigum að vinna leiki þar sem við erum einum manni fleiri í rúmar 30 mínútur. Þetta eru bara svekkjandi úrslita fyrir okkur.” Sagði Haukur Páll í samtali við mbl.is.