Vestri vann í dag sinn fyrsta sigur á tímabilinu þegar að liðið tók á móti Njarðvík á Ísafirði í 1. deild karla í fótbolta. Leiknum lauk með sigri Vestra, 2:0.
Njarðvíkingar misstu markmanninn sinn, Robert Blakala, af velli með rautt spjald á 19. mínútu leiksins þegar hann greip boltann fyrir utan vítateig sinn til að varna því að leikmaður Vestra slyppi einn í gegn.
Vestra-menn nýttu sér liðsmuninn og skoruðu fyrsta mark leiksins á 36. mínútu þegar Ibrahima Balde kom boltanum í netið. Deniz Yaldir tók þá hornspyrnu sem fór beint á kollinn á Balde sem skallaði boltann í fjærhornið.
Benedikt Warén tvöfaldaði forystu heimamanna á 45. mínútu. Vestri fékk þá hornspyrnu sem var send inn á teiginn þar sem Gustav Kjeldsen reis manna hæst. Daninn átti skalla að marki sem Benedikt stýrði í markið með bringunni.
Leikurinn fjaraði út í síðari hálfleik og mikilvægur sigur Vestra staðreynd.
Sigurinn fleytir Vestra-mönnum upp í 8. sæti en liðið er nú komið með 5 stig. Njarðvíkingar eru í 7. sæti einnig með 5 stig.