„Blaut tuska í andlit dómara og íslenskrar knattspyrnu“

Brynjar hefur kallað eftir því að Arnar Gunnlaugsson fái að …
Brynjar hefur kallað eftir því að Arnar Gunnlaugsson fái að minnsta kosti tveggja leikja bann. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Fyrrverandi knattspyrnudómarinn Brynjar Birgisson birti afar áhugaverðan pistil um dómarastörfin á fótbolta.net í dag.

Tilefni pistilsins er stórleikur Breiðabliks og Víkings úr Reykjavík sem fram fór á Kópavogsvelli á föstudaginn.

Leiknum lauk með jafntefli, 2:2, en Ívar Orri Kristjánsson dæmdi leikinn og var dómarinn harðlega gagnrýndur af Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings, í leikslok.

Ekki 17 ára leikmaður sem missir hausinn

„Þetta er ekki 17 ára leikmaður í 2. deildinni sem missir haus í viðtali eftir fyrsta meistaraflokksleikinn,“ skrifaði Brynjar í pistli sínum á fótbolta.net.

Þetta er margverðlaunaður þjálfari og fyrrum landsliðsmaður sem spilaði tæplega 50 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Við hljótum að mega setja þær kröfur að hann mæti ekki í viðtöl svo stjórnlaus af bræði að hann geti ekki hætt að tala um dómara þó fréttamenn reyni að spyrja út í önnur atriði leiksins,“ skrifaði Brynjar.

Meirihlutinn snýst um dómara

Forseti leikmannasamtaka Íslands og Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, kölluðu eftir því að Arnar yrði ekki dæmdur í bann vegna ummælanna.

Pælið í því að vera 24 ára dómari sem er nýbyrjaður að dæma í neðri deildum og horfir á viðtalið við Arnar og fer svo á Twitter þar sem forseti Leikmannasamtaka Íslands og fyrrum formaður KSÍ taka báðir afstöðu með Arnari.

Forseti Leikmannasamtaka Íslands talar um að dómarar þurfi að geta „höndlað“ gagnrýni eins og leikmenn. Nú hef ég séð tvö viðtöl við Arnar eftir leikinn, þau eru í heildina um það bil tíu mínútur og meirihlutinn af þeim mínútum snúast um dómara.

Ég ætla ekki að fullyrða það en ég man ekki eftir því að hafa séð viðtal við þjálfara á Íslandi þar sem hann talar með þessum hætti um einn ákveðinn leikmann, hvort sem er eigin leikmann eða andstæðing, í einhverjar sjö eða átta mínútur.“

Einn leikur ef hann biðst afsökunar

Þá kallar Brynjar eftir því að Arnar fái að minnsta kosti tveggja leikja bann fyrir ummæli sín.

Allt annað en tveggja leikja bann fyrir hegðun Arnars er blaut tuska í andlit dómara og íslenskrar knattspyrnu. Einn leikur ef hann biðst innilegrar afsökunar,“ bætti Brynjar við í pistli sínum á fótbolta.net.

Ívar Orri Kristjánsson dæmdi stórleik Breiðabliks og Víkings á Kópavogsvelli …
Ívar Orri Kristjánsson dæmdi stórleik Breiðabliks og Víkings á Kópavogsvelli á dögunum. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert