Breiðablik í undanúrslit á dramatískan hátt

Blikar fagna marki í kvöld.
Blikar fagna marki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik er komið í undanúrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir góðan 3:1-sigur á FH í 8-liða úrslitunum á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn byrjaði með látum en strax á þriðju mínútu átti Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Blika hörkuskot í fjærstöngina. 

Það dró síðan til tíðinda á 11. mínútu en þá átti Kjartan Kári Halldórsson laglega sendingu inn í teig sem Úlfur Ágúst Björnsson stökk á og potaði framhjá Antoni Ara Einarssyni og kom FH-ingum yfir, 1:0. 

Eftir það róaðist leikurinn all mikið en FH-ingar spiluðu agaðan varnarleik og beittu skyndisóknum. Blikar komust í fá færi og fóru gestirnir úr Hafnarfirðinum marki yfir til búningsklefa. 

Blikarnir voru öllu betri í síðari hálfleik og sköpuðu sér hættulegar stöður. Það skilaði sér á 70. mínútu þegar færeyski varamaðurinn Klæmint Olsen potaði fyrirgjöf Ágústs Eðvalds Hlynssonar í netið af stuttu færi og jafnaði metin fyrir heimamenn. 

Breiðablik var betri það sem eftir lifði leiks og á annarri mínútu uppbótartíma kom bakvörðurinn Davíð Ingvarsson Blikum yfir er hann skaut í gegnum klof Ástbjörns Þórðarsonar og framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í marki FH, sem hefði mögulega getað gert betur. 

Eggert Gunnþór Jónsson fékk svo beint rautt spjald síðar í uppbótartímanum fyrir ljóta tæklingu á Viktori Karli Einarssyni.

Klæmint bætti svo við öðru marki sínu alveg undir lok leiksins eftir stjörnu undirbúning frá Gísla Eyjólfssyni. Lokaniðurstaðan 3:1, Breiðablik í vil. 

Liðin mæta hvoru öðru í deildinni næsta laugardag, í Kaplakrika klukkan þrjú. 

Úlfur Ágúst Björnsson fagnar marki sínu ásamt Kjartani Kára Halldórssyni.
Úlfur Ágúst Björnsson fagnar marki sínu ásamt Kjartani Kára Halldórssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jason Daði Svanþórsson með boltann í kvöld.
Jason Daði Svanþórsson með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Breiðablik 3:1 FH opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka