Ingimar Arnar Kristjánsson er ungur knattspyrnumaður sem fáir þekkja, nema kannski Þórsarar og þeir sem fylgjast vel með 1. deildinni í fótbolta. Hann var á skotskónum í kvöld þegar Þór fékk bikarmeistara Víkings í heimsókn í Þorpið á Akureyri. Leikurinn var fyrsti leikur 8-liða úrslita bikarkeppninnar og lauk honum með 2:1-sigri Víkings.
Ingimar gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn í 1:1 á 16. mínútu og sló það mark Víkinga út af laginu. Gestirnir skoruðu sigurmark sitt á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og eftir það var lítið um færi en Þór hefði þó getað jafnað á ný undir lok leiksins. Ingimar var fenginn í stutt spjall eftir leik.
Hvernig var fyrir þig að undirbúa þennan leik við topplið Bestu-deildarinnar?
„Það var góð stemning hjá öllum og við ætluðum að mæta þeim almennilega. Við ætluðum að vera yfir í öllum þáttum, hlaupum, baráttu og orku. Mér fannst við vera það og við vorum óheppnir að missa þessi tvö mörk inn í byrjun beggja hálfleika. Það er ansi erfitt að fá á sig mark í byrjun en við lokuðum vel allan leikinn og þeir fengu ekki mikið af færum. Við áttum svo bara að skora þarna á 85. mínútu þegar Kristófer komst einn í gegn en var óheppinn með slúttið.“
En sumarið hjá þér og Þórsurum?
„Það er bara vinna og æfingar eftir að skólinn kláraðist loksins.“
Lýstu nú þessu marki. Mér fannst eins og þið væruð búnir að missa boltann í tvígang áður en þú fékkst hann og kláraðir dæmið.
„Ég var ekki alveg með hann þarna fyrst en svo kom hann til mín og ég skaut fyrst í stöngina en boltinn kom aftur til mín og þá var ég nánast kominn inn í markið og gat eiginlega ekki klúðrað. Mér fannst við bara vera ofan á eftir þetta mark og Víkingar ekki að gera neitt. Þeir voru eitthvað pirraðir. Við hins vegar vorum ákveðnir í að halda fókus allan tímann og vera ekki að eyða orku í einhvern pirring eða dómgæslu.“
Þú lentir nú í glímu við Oliver Ekroth. Hann virtist bara hanga í þér og draga þig svo niður. Svo hrinti hann öðrum leikmanni út við hornfána skömmu síðar. Þetta var í stöðunni 1:1. Átti hann ekki að fjúka út af?
„Ja, hann togaði mig alla vega niður en kannski leit þetta eitthvað illa út. Það var bara sanngjarnt gult spjald en svo slapp hann með nokkur brot eftir það. Maður getur alveg spáð í það hvort hann hafi ekki bara átt að fjúka út af,“ sagði Ingimar að lokum, greinilega nokkuð sáttur með leik sinna manna.