Mæta Blikar gömlum kunningjum í úrslitaleik?

Denis Shurman dómari frá Úkraínu hefði í nógu að snúast …
Denis Shurman dómari frá Úkraínu hefði í nógu að snúast þegar Breiðablik og Buducnost mættust á Kópavogsvelli í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik getur mætt gömlum „kunningjum“ frá Svartfjallalandi í úrslitaleik um sæti í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli síðar í þessum mánuði.

Buduncnost frá Podgorica tryggði sér meistaratitil Svartfjallalands á dögunum eftir hnífjafna keppni við Sutjeska Niksic, þar sem liðin enduðu jöfn að stigum.

Fyrir lá að Íslandsmeistarar Breiðabliks yrðu í í fjögurra liða forkeppni dagana 27. til 30. júní ásamt meistaraliðum Svartfjallalands, San Marínó og Andorra en hún verður leikin á Kópavogsvelli.

UEFA hefur raðað liðunum fjórum niður í tvo styrkleikaflokka. Breiðablik og Buducnost eru í efri flokknum og munu því ekki mætast í undanúrslitunum, heldur verða þau dregin gegn Tre Penne frá San Marínó og Atlétic Club d'Escaldes frá Andorra og mæta þeim 27. júní. Dregið verður á þriðjudaginn í næstu viku, 13. júní.

Úrslitaleikur milli sigurvegaranna fer svo fram á Kópavogsvelli 30. júní, auk þess sem tapliðin leika um þriðja sæti forkeppninnar.

Breiðablik mætti Buducnost í Sambandsdeild Evrópu í fyrra og þar sauð upp úr í fyrri leiknum á Kópavogsvelli þegar tveir leikmenn Buducnost og þjálfari liðsins fengu rauða spjaldið. Blikar unnu þann leik 2:0 og töpuðu seinni leiknum í Podgorica, 2:1.

Núna er sæti í 1. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar í húfi. Þangað fer sigurliðið í þessari fjögurra liða forkeppni en hin þrjú liðin færast yfir í Sambandsdeild Evrópu.

Komist Blikar áfram í Meistaradeildinni liggur fyrir hvaða liðum þeir geta mætt í 1. umferðinni en þau eru eftirtöld:

Ferencváros, Ungverjalandi
Qarabag, Aserbaídsjan
Slovan Bratislava, Slóvakíu
Sheriff Tiraspol, Moldóvu
BATE Borisov, Hvíta-Rússlandi
Astana, Kasakstan
Maccabi Haifa, Ísrael
Zalgiris Vilnius, Litháen
HJK Helsinki, Finnlandi
Flora Tallinn, Eistlandi
Shamrock Rovers, Írlandi
The New Saints, Wales
Olimpija Ljubljana, Slóveníu
Zrinski Mostar, Bosníu
Meistarar Búlgaríu (Ludogorets eða CSKA)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert