Davíð Örn Atlason var fyrirliði Víkinga í kvöld þegar þeir sóttu Þórsara heim í bikarkeppninni í fótbolta. Leikur liðanna var fremur tíðindalítill en mörk snemma í hvorum hálfleik gaf Víkingum 2:1-sigur. Davíð Örn, sem er vanur að spila sem hægri bakvörður, byrjaði leikinn í bakvarðarstöðunni vinstra megin en fór svo á sinn stað eftir 60 mínútna leik.
Kappinn var feginn að hafa landað sigri og kom í viðtal eftir leik.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég byrja leik sem fyrirliði hjá uppeldisfélaginu og ég get ekki annað en verið stoltur af því,“ sagði Davíð Örn.
Hann æfði og lék þó í nokkur ár með KA áður en leiðin lá suður á bóginn.
Það hefur verið gaman fyrir þig að koma aftur á æskuslóðir.
„Ég lít alltaf á mig sem meiri Víking, heldur en KA-mann þótt það sé KA-maður í mér. Ég held alltaf með þeim í handboltanum.“ Fyrir þá sem ekki vita þá þjálfaði Atli Hilmarsson, faðir Davíðs, KA um hríð og Arnór Atlason, bróðir Davíðs, spilaði með liðinu á sama tíma.
„En það er alltaf gaman að koma hingað til að spila.“
Þið lentuð í hörkuleik hér í dag.
„Við gerðum nokkrar breytingar á liðinu frá því í síðasta leik fyrir þremur dögum en mættum með öflugt lið. Við lentum í svipuðum leik í síðustu umferð á móti Gróttu og við vissum að þetta yrði erfitt og mikil barátta. Völlurinn var örlítið erfiður. Við erum ekkert vanir að spila á grasvöllum. Þórsarar voru í rauninni bara frábærir og lágu dálítið á okkur seinasta part leiksins. Ég var bara feginn þegar flautað var af. Það er ekkert spurt að því hvernig við unnum leikinn þegar við komumst í undanúrslit.“
Þið skoruðuð snemma í hvorum hálfleik til að taka forustu en gerðuð svo lítið meira en að sigla þessu heim. Þið virtust líka missa aðeins taktinn við jöfnunarmark Þórs eftir korters leik. Í stöðunni 2:1 var Þór svo nálægt því að jafna undir lok leiks.
„Mér fannst við vera bara að verja okkar forskot. Þór fékk engin færi en við ekki heldur. Við erum góðir að verja forskot, þrátt fyrir lokin á síðasta leik. Þetta mark hjá þeim verð ég bara að taka á mig. Ég mat aðstæður ekki rétt og tók innkast inn í miðja vörnina á svona erfiðum velli. Best bara að koma þessu upp kantinn í staðinn. Mér er eiginlega alveg sama hvernig þetta spilaðist fyrst við erum komnir í undanúrslitin fjórða árið í röð.“
Ég veit að þið hafið unnið bikarinn í síðustu þrjú skipti. Eruð þið þá taplausir í bikar frá því 2018?
„Ég á kannski ekki að vera minnast á það en við töpuðum í bikarkeppninni 2020 en þá var ekki spilað til úrslita og mótið blásið af. Þetta gleymist alltaf.“ Það voru Stjörnumenn sem slógu Víkinga út í 16-liða úrslitum það árið.
Það bætist þá við a.m.k. einn leikur sem þið spilið í sumar. Það er búið að vera brjálað að gera og komnir 11 leikir í deildinni nú þegar. Þið eruð búnir að vera góðir.
„Næsti leikur er á sunnudag en svo kemur kærkomin hvíld. Þetta er búið að vera gaman í sumar. Erum núna með fimm stiga forskot á toppnum en það var meira um daginn. Það er bara frekja að kvarta yfir því að vera bara með fimm stiga forskot núna. Það var náttúrulega hundfúlt að tapa niður forskotinu gegn Blikum í síðasta leik, en við höldum bara ótrauðir áfram.“
Það er ein spurning sem hefur blundað með mér síðan í fyrra. Þú fórst eitt ár í Breiðablik en það ár varð Víkingur Íslandsmeistari. Svo komstu heim í fyrra og þá urðu Blikar meistarar. Þarna ertu búinn að missa af tveimur Íslandsmeistaratitlum. Hvernig er það?
„Ég mun aldrei jafna mig á þessu fyrr en ég vinn þennan titil sjálfur. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt á þeim tíma sem ég skipti yfir í Breiðablik. Ég, sem betur fer, sá að mér og vildi strax koma aftur í Víking og ég verð með þeim á meðan krafta minna er óskað,“ sagði hinn magnaði Davíð Örn að lokum.