Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í fótbolta, á ekki yfir höfði sér leikbann vegna ummæla sem hann lét falla eftir leik Víkings og Breiðabliks í Bestu deildinni í fótbolta á föstudaginn var.
„Ég hef ekki vísað neinu úr því viðtali til aganefndar. Við erum búin að fara yfir gögn málsins og ég á ekki von á því að ég geri það,“ sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við mbl.is.
Arnar var mjög pirraður í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Stöð 2 Sport eftir leik.
„Ég er búinn að standa með þessum dómurum í ansi mörg ár en núna hef ég virkilegar áhyggjur. Það er svo mikið af atriðum sem er að hjá dómurunum, svona grundvallaratriði.
Maður reynir að tala við þessa gaura en þeir eru jafn heilagir og páfinn. Þeir þykjast svo ekkert vita og benda bara á hvorn annan,“ sagði Arnar meðal annars.
Klara segir það ekki verðskulda bann, þar sem hann gagnrýndi frammistöðu dómarans, en sakaði hann ekki um óheiðarleika eða svindl.
„Hann fór hörðum orðum yfir frammistöðu dómara, en það sem við höfum verið að miða við er að þú getur haft skoðun á frammistöðu dómara, sem í þessu tilviki var harkalega sett fram.
En ef ummælin eru þess efnis að dómarinn er sakaður um óheiðarleika eða svindl, þá höfum við verið að senda það til nefndarinnar,“ sagði Klara.