Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, hefur úr mörgum góðum kostum að velja þegar hann stillir upp miðju og framlínu liðsins fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM á Laugardalsvellinum 17. og 20. júní.
Fyrir fram er þó hægt að segja með nokkurri vissu að sjö stöður í byrjunarliðinu séu nánast fráteknar.
Rúnar Alex Rúnarsson verður í markinu og nær öruggt má telja að í varnarlínunni verði Guðlaugur Victor Pálsson, Sverrir Ingi Ingason, Hörður Björgvin Magnússon og Valgeir Lunddal Friðriksson.
Sverrir hefur sáralítið leikið með liðinu síðustu ár, á sama tíma og hann missir varla af leik hjá PAOK í Grikklandi þar sem hann var fyrirliði í mörgum leikjum í vetur. Hann styrkir varnarleik liðsins verulega en næsta víst er að miðvarðaparið verði „grískt“, Sverrir frá PAOK og Hörður Björgvin frá Panathinaikos. Guðlaugur Victor leysir þá stöðu hægri bakvarðar eins og hann hefur margoft gert með ágætum síðustu árin.
Valgeir Lunddal, sænskur meistari með Häcken og fastamaður í liðinu, er nánast sjálfkjörinn sem vinstri bakvörður. Davíð Kristján Ólafsson hefur leikið þar undanfarið en Hareide valdi hann ekki í hópinn að þessu sinni.
Alfons Sampsted er þá til taks fyrir bakvarðarstöðurnar og Daníel Leó Grétarsson fyrir miðvarðastöðurnar.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.