Jafntefli í stórleiknum

Stjörnukonan Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir og Blikinn Elín Helena Karlsdóttir …
Stjörnukonan Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir og Blikinn Elín Helena Karlsdóttir berjast um boltann á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert

Breiðablik og Stjarnan skildu jöfn, 1:1, í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdauður og það var fátt um fína drætti en hvorugt lið skapaði sér almennilegt færi. Það gerði það að verkum að liðin fór jöfn og markalaus til búningsklefa, 0:0. 

Lengi vel leit út fyrir að í seinni hálfleik yrði uppi slíkt hið sama en á 60. mínútu átti Stjörnukonan Arna Dís Arnþórsdóttir hörkuskot rétt innan teigs sem Telma Ívarsdóttir varði í horn. Úr hornspyrnunni skoraði svo Andrea Mist Pálsdóttir en skot hennar flaug yfir alla í teignum, sem og Telmu, og endaði í netinu. 1:0 fyrir gestunum. 

Blikakonur rifu sig í gang eftir það og á 67. mínútu fengu þær vítaspyrnu þegar Sædís Rún Heiðarsdóttir togaði Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur inn í teig Stjörnunnar og Arnar Þór Stefánsson dómari benti á punktinn. 

Á punktinn steig Agla María Albertsdóttir í sínum 150. leik fyrir Kópavogsliðið en hún skaut í utanverða stöngina og fram hjá, og staðan var enn 1:0 fyrir Stjörnunni. 

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Breiðablik metin. Bergþóra Sól Ásmundsdóttir átti háa sendingu frá hægri inn í markteig Stjörnunnar vinstra megin og þar hrökk hann af höfði Málfríðar Ernu Sigurðardóttur og í netið. Þetta var sjálfsmark og staðan 1:1.

Blikaliðið var sterkara það sem eftir lifði leiks en bæði lið vörðust vel og skildu að lokum jöfn, 1:1. 

Breiðablik er í öðru sæti deildarinnar með 13 stig, jafnmörg og Þróttur úr Reykjavík og þremur minna en Valur í fyrsta. Stjarnan er í fjórða sæti með 11 stig.  

Breiðablik fer til Eyja og mætir ÍBV í næsta leik sínum en Stjarnan fær FH í heimsókn í næsta leik sínum. 

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Breiðablik 1:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka