„Ég var mikið á bekknum og var ekki sáttur við það. Það var geggjað að klára tvennuna en ég er mjög ósáttur,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður FC Köbenhavn og íslenska landsliðsins, í samtali við mbl.is.
Ísak fékk fá tækifæri hjá Köbenhavn á nýafstöðnu tímabili.
„Ég nýtti mín tækifæri þegar ég fékk þau. Eins og á móti AGF, þá bjó ég til mjög mörg færi fyrir liðsfélaga mína og átti mjög góðan leik. Mér var svo hent á bekkinn og er mjög ósáttur við það.
Ég segi það alveg hreint út og er mjög ósáttur við það hvernig hefur verið komið fram við mig þarna. Góðir leikmenn vilja spila fótbolta og vonandi getur það gerst á næsta tímabili,“ bætti hann við.
Spurður hvort það verði hjá Köbenhavn eða annars staðar sagði Ísak:
„Það verður bara að koma í ljós en ég er mjög ósáttur við meðferðina á mér þarna. Þegar ég fæ að spila mína stöðu þá finnst mér ég alltaf hafa staðið mig vel.
Það eru vissir leikmenn sem spila þarna og ég þarf bara að bíða eftir tækifærinu mínu. En maður getur ekki beðið endalaust. Maður þarf að sýna og sanna að maður eigi skilið að spila og ég hef gert það.“
Eftir persónuleg vonbrigði með spilatíma í Danmörku sagði hann það ánægjulegt að koma heim til móts við íslenska landsliðið, þar sem liðið á fyrir höndum leiki gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM 2024 síðar í mánuðinum.
„Algjörlega, tveir geðveikir leikir. Ég sá að það var uppselt fyrir Portúgalsleikinn og svo er líka leikur 17. júní þannig að það verður vonandi uppselt á hann líka. Við erum með spennandi lið og Åge Hareide er búinn að koma með nýja vinda inn í þetta.
Það eru mjög margir spenntir fyrir þessu núna. Það er bara geðveikt að koma til Íslands og undirbúa okkur fyrir tvo góða leiki,“ sagði Ísak að lokum í samtali við mbl.is.