„Skandinavískir þjálfarar í eldri kantinum hafa hjálpað okkur“

Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með íslenska landsliðinu.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/KSÍ

„Mér líst mjög vel á hann. Það hefur sýnt sig að skandinavískir þjálfarar í eldri kantinum hafa hjálpað okkur mjög mikið í gegnum tíðina,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður í knattspyrnu, um nýjan þjálfara liðsins, Norðmanninn Åge Hareide, í samtali við mbl.is.

„Åge er náttúrlega búinn að upplifa allt á skandinavískan mælikvarða. Hann hefur verið með Malmö, danska landsliðið og bara allt saman. Það er gott fyrir okkur að læra af honum og sjá hvað hann getur gert fyrir okkur,“ bætti Ísak við.

Hareide er 69 ára gamall, þaulreyndur þjálfari. Síðustu erlendu þjálfarar karlalandsliðsins, Svíarnir Lars Lagerbäck og Erik Hamrén, stýrðu því einnig á sjötugsaldri.

Íslenska landsliðið mætir Slóvakíu þann 17. júní og Portúgal þremur dögum síðar. Báðir leikirnir eru liðir í undankeppni EM 2024, þar sem Ísland eygir annað sætið ásamt Slóvökum og Bosníumönnum.

„Í þessum fyrri leik er svolítið að duga eða drepast. Við þurfum að vinna hann en svo getum við kannski leyft Portúgal að stjórna þeim leik, farið niður í skotgrafirnar og reynt að ná í stig þar.

Við þurfum að vinna fyrri leikinn, það er mjög mikilvægt að taka þrjú stig þar, en við sjáum til,“ sagði Ísak er blaðamaður náði tali af honum skömmu fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli.

Mikilvægt að fá góðan tíma til undirbúnings

Liðið fær óvenju langan undirbúningstíma fyrir leikina tvo.

„Það er mjög mikilvægt. Það var skráður vináttuleikur við Mexíkó en Åge vildi ekki fara með okkur til Bandaríkjanna að spila hann, sem er alveg skiljanlegt. Hann er góður að drilla okkur á æfingasvæðinu og þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur.

[Landsleikja]glugginn hefst 12. júní en við erum núna að æfa í 5-6 daga á undan og náum vonandi að drilla liðið. Þetta er mjög mikilvægur leikur á móti Slóvakíu,“ sagði Ísak að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert