„Mér líst ógeðslega vel á hann. Það var fyrsta æfing í gær og maður sér að hann er alveg með þetta,“ sagði Sævar Atli Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, um Norðmanninn Åge Hareide, landsliðsþjálfara.
„Hann kann þetta bara, hefur mikla reynslu. Hann og Jói Kalli [Jóhannes Karl Guðjónsson aðstoðarþjálfari] eru frábært teymi og ég er mjög spenntur að læra af honum. Ég mun taka hvaða hlutverki sem ég fæ, hvort sem það sé mikill spiltími eða að vera á bekknum.
Ég geri allt sem ég get til að hjálpa liðinu og mér líst rosalega vel á að æfa undir hans stjórn,“ bætti Sævar Atli við í samtali við mbl.is skömmu fyrir landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í dag.
Ísland mætir Slóvakíu og Portúgal í mikilvægum leikjum í undankeppni EM 2024 síðar í mánuðinum, 17. og 20. júní. Þrátt fyrir að nokkuð sé enn í leikina er stór hluti íslenska hópsins þegar kominn saman til æfinga.
„Það er mjög mikilvægt. Hann er náttúrlega nýr þjálfari og þarf að koma sínum áherslum á framfæri sem fyrst. Mér heyrist hann ekki ætla að breyta miklu heldur finna þessi gömlu íslensku einkenni. Mér líst rosalega vel á það.
Þegar hópurinn kemur allur saman á mánudaginn munum við sjá hvernig við erum að fara að spila og ég hef mikla trú á því að það muni ganga vel,“ sagði sóknarmaðurinn.
Spurður nánar út í leikina tvo sagði Sævar Atli að lokum:
„Við verðum náttúrlega að einbeita okkur að fyrri leiknum, maður getur ekki fókusað á annan leik. Við erum bara með einbeitingu á Slóvakíuleiknum núna og erum mjög spenntir fyrir því að mæta þeim.
Þetta er mjög mikilvægur leikur því við erum kannski að berjast um þetta annað sæti í riðlinum. Portúgal á að ná fyrsta sætinu en ég er mjög spenntur. Við erum á heimavelli og þegar við erum á heimavelli ætlum við okkur alltaf að ná í þrjú stig.“