Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta voru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á lokamóti HM í fyrsta sinn í sögunni síðasta haust, en grátleg töp gegn Hollandi í lokaleik riðlakeppninnar og Portúgal í umspili þýddu að liðið sat eftir með sárt ennið.
Liðsmenn íslenska liðsins misstu ekki aðeins af tækifæri til að láta ljós sitt skína á stærsta sviðinu, heldur einnig af tæpum 4,2 milljónum króna, sem hver leikmaður sem tekur þátt á mótinu fær frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.
Í fyrsta skipti fá leikmenn greiðslu beint frá FIFA, líkt og hefur tíðkast á HM karla. Því lengra sem lið komast, því hærri verður upphæðin sem hver leikmaður vinnur sér inn.
Hver leikmaður í sigurliðinu á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar fær um 38 milljónir króna í sinn hlut.