Lék sinn fyrsta leik frá fæðingaári frænda síns

Frændurnir Arnar Pálmi Kristjánsson og Pálmi Rafn Pálmason.
Frændurnir Arnar Pálmi Kristjánsson og Pálmi Rafn Pálmason. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Pálmi Rafn Pálmason lék sinn fyrsta heimaleik fyrir Völsung síðan árið 2002 er liðið tók á móti KFA úr Fjarðabyggð í 2. deildinni í fótbolta á Húsavík í gærkvöld. 

Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en Völsungur jafnaði metin á áttundu mínútu uppbótartíma seinni hálfleiks, og var þar að verki Arnar Pálmi Kristjánsson. Esteban Selpa hafði komið KFA í fyrri hálfleik. 

Pálmi spilaði leikinn ásamt frænda sínum, fyrirliða og markaskorara, Arnari Pálma, en hann fæddist árið 2002, sama ár og Pálmi lék síðasta heimaleik sinn fyrir félagið. 

Heil umferð var leikin í deildinni í gærkvöld og Þróttur úr Vogum komst í efsta sætið með sigri á KV, 2:0, á gervigrasvelli KR-inga. Fyrra markið var sjálfsmark og það seinna skoraði Adam Árni Andersen.

Víkingur í Ólafsvík er í öðru sæti með 13 stig eins og Þróttur eftir sigur á Haukum í Ólafsvík, 2:0. Abdelhadi Khalok El Bouzarrari og Luis Romero skoruðu mörk Ólafsvíkinga í síðari hálfleik.

KFG úr Garðabæ er í þriðja sæti með 12 stig eftir sigur á ÍR í Mjóddinni, 2:1. Kári Pétursson skoraði bæði mörk Garðbæinga, sigurmarkið úr vítaspyrnu, en í millitíðinni jafnaði Sæmundur Sven Schepsky fyrir ÍR-inga.

Alberto Lopez tryggði Hetti/Hugin sigur á Sindra, 1:0, á Egilsstöðum með marki á 20. mínútu. Höttur/Huginn er með átta stig í sjöunda sæti en Sindri er með fimm stig í tíunda sæti.

KF fékk sín fyrstu stig með sigri, 2:1, í grannaslag gegn Dalvík/Reyni á Dalvík. Sævar Þór Fylkisson skoraði bæði mörk KF, sigurmarkið á fimmtu mínútu í uppbótartíma, en Áki Sölvason hafði jafnað fyrir Dalvík/Reyni seint í leiknum. KF er áfram neðst en nú með þrjú stig, einu stigi á eftir Völsungi. Dalvík/Reynir er með sex stig í níunda sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert