Málfríður Anna Eiríksdóttir, leikmaður Vals, var besti leikmaðurinn í sjöundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta, að mati Morgunblaðsins.
Málfríður Anna fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Vals gegn Þór/KA á þriðjudagskvöldið þar sem hún var frábær í bæði vörn og sókn á miðsvæðinu. Leiknum lauk með naumum sigri Vals, 1:0, en það var Þórdís Elva Ágústsdóttir sem skoraði sigurmarkið á 54. mínútu.
Málfríður Anna, sem er 25 ára gömul, lék sinn 110. leik í efstu deild gegn Þór/KA í vikunni en hún hefur skorað tvö mörk í efstu deild.
Hún er uppalin hjá Val á Hlíðarenda og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið í september árið 2013, þá 15 ára gömul, þegar hún kom inn á sem varamaður gegn Þrótti úr Reykjavík í úrvalsdeildinni.
Meira um Málfríði ásamt úrvalsliði 7. umferðar má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.