Knattspyrnumaðurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur verið úrskurðaður í bann frá allri knattspyrnuiðkun út árið 2023.
Þetta kom fram í yfirlýsingu Aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusamband Íslands sem birtist á heimasíðu KSÍ í dag.
Steinþór Freyr, sem er 37 ára gamall, lagði fram á annan tug veðmála í ýmsum mótum á vegum KSÍ á veðmálasíðunni Pinnacle yfir nokkurra ára tímabil en hann er samningsbundinn KA í Bestu deildinni.
„Kærði hefur á fimm ára tímabili gerst sekur um ítrekuð brot gegn ofangreindum ákvæðum en megnið af veðmálastarfsemi kærða, þ.e. 36 tilvik af 40, átti sér stað á árunum 2022 og 2023,“ segir í tilkynningu Aga- og úrskurðarnefndarinnar.
„Í eitt þeirra skipta hafi kærði veðjað á leik sem hann tók þátt í sjálfur. Nefndin telur að hér sé um að ræða brot á grundvallarreglu sem eru alvarleg eðlis.
„Hefur aga- og úrskurðarnefnd ákveðið með vísan til 40. greinar laga KSÍ að úrskurða kærða í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 9. júní 2023 til og með 31. desember 2023,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Yfirlýsing Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ:
„Við ákvörðun viðurlaga horfir nefndin til þess að varnaraðili hafi gerst brotlegur gagnvart ákvæði laga KSÍ sem ætlað er að standi vörð um heilindi og háttvísi í knattspyrnuhreyfingunni. Þegar aðili, sem fellur undir lögin, gerist uppvís af þátttöku í veðmálastarfsemi í tengslum við eigin leiki og eigið mót brýtur það gegn grundvallarreglu um heiðarlegan leik gagnvart öllum þátttakendum leiksins.
Kærði hefur á fimm ára tímabili gerst sekur um ítrekuð brot gegn ofangreindum ákvæðum en megnið af veðmálastarfsemi kærða, þ.e. 36 tilvik af 40, átti sér stað á árunum 2022 og 2023. Í eitt þeirra skipta hafi kærði veðjað á leik sem hann tók þátt í sjálfur. Nefndin telur að hér sé um að ræða brot á grundvallarreglu sem eru alvarleg eðlis.
Í málinu liggur fyrir skýr viðurkenning af hálfu kærða við framangreindum brotum og iðrun af hans hálfu að hafa með dómgreindarbresti tekið þátt í veðmálastarfsemi eru lutu að eigin liði og keppnum sem lið hans tók þátt í.
Við ákvörðun viðurlaga tekur nefndin tillit til alls ofangreinds sem og þess að ekkert liggur fyrir um að kærði hafi með brotum sín reynt að hagræða úrslitum leikja.
Hefur aga- og úrskurðarnefnd ákveðið með vísan til 40. greinar laga KSÍ að úrskurða kærða í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 9. júní 2023 til og með 31. desember 2023.“