Hélt að ég myndi eiga fleiri landsleiki

Willum Þór Willumsson á landsliðsæfingu á Laugardalsvelli á miðvikudag.
Willum Þór Willumsson á landsliðsæfingu á Laugardalsvelli á miðvikudag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnumaðurinn Willum Þór Willumsson, leikmaður Go Ahead Eagles í Hollandi, á einungis einn A-landsleik að baki fyrir Íslands hönd. Hann er hins vegar í fyrsta landsliðshópi Åge Hareide og vonast nú til þess að leikjunum fari fjölgandi.

Meiðsli á óheppilegum tímum, þegar landsleikjagluggar hafa staðið yfir, hafa stundum sett strik í reikninginn og á öðrum stundum virtist Willum Þór einfaldlega ekki hafa verið inni í myndinni hjá landsliðinu.

Spurður hvort hann væri svekktur með að A-landsleikirnir væru ekki fleiri sagði Willum Þór:

„Svona bæði og. Ég hef verið meiddur á slæmum tímum upp á landsliðið að gera en svo eru líka 1-2 skipti þar sem maður hélt kannski að maður myndi vera í hópnum en var ekki.

Það er bara eins og það er. Ég er orðinn 24 ára og auðvitað hélt ég að ég yrði kannski kominn með fleiri landsleiki. En það er eins og það er og vonandi byrjar það þá bara núna.“

Léttur og skemmtilegur

Fyrstu kynni hans af nýjum landsliðsþjálfara hafa verið góð.

„Mér líst mjög vel á hann. Hann virkar léttur og skemmtilegur. Svo er hann með sínar hugmyndir, sem er mjög mikilvægt. Það er gott að við fáum núna smá auka tíma til þess að hann geti komið sínum hugmyndum á framfæri til liðsins,“ sagði Willum Þór um Hareide.

Undirbúningstími liðsins fyrir tvo landsleiki síðar í mánuðinum er ansi drjúgur þar sem æfingar hófust hjá stærstum hluta hópsins í byrjun þessarar viku.

Eigum alltaf möguleika á heimavelli

Ísland á fyrir höndum tvo leiki í undankeppni EM 2024, gegn Slóvakíu 17. júní og Portúgal þremur dögum síðar. Af leikjunum tveimur er sá fyrri gegn Slóvakíu tvímælalaust mikilvægari.

„Já, algjörlega. Ég tel að við séum mjög spenntir fyrir þessum tveimur leikjum. Báðir leikirnir eru á heimavelli, sem er alltaf gaman. Við gerum okkur alveg grein fyrir því hversu mikilvægur Slóvakíuleikurinn er. Við förum í hann til þess að sækja þrjú stig.

Svo er Portúgalsleikurinn, það er alltaf gaman að spila við stórar þjóðir og á heimavelli eigum við alltaf möguleika. Ég held að við förum bara frekar bjartsýnir inn í báða þessa leiki,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert