Knattspyrnumaðurinn Willum Þór Willumsson er í íslenska landsliðshópnum eftir að hafa staðið sig afskaplega vel með Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili.
„Það gekk mjög vel. Liðinu gekk vel og mér gekk mjög vel. Ég er mjög ánægður með að ég hafi tekið þetta skref og farið til Hollands.
Ég held að hollenski boltinn henti mér mjög vel. Ég var ótrúlega ánægður með tímabilið,“ sagði Willum í samtali við mbl.is fyrir landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í dag.
Hann er fjölhæfur leikmaður sem leikur oftast á miðjunni en lék frammi í 4-4-2 leikkerfi Go Ahead á tímabilinu.
„Þetta er svona 4-4-2 þar sem ég er einn af tveimur framherjum, en ég fæ smá frjálsræði. Ég get farið niður á miðjuna eða haldið mér uppi,“ útskýrði Willum.
Það gafst einstaklega vel þar sem hann var markahæsti leikmaður liðsins með átta mörk í hollensku deildinni. Var lagt upp með að Willum yrði sá leikmaður sem helst yrði leitað til í markaskorun?
„Nei, örugglega ekki! Ég er ekki dæmigerður markaskorari þó ég skori alltaf mín mörk á hverju tímabili. Það hvernig liðið var að spila og það hlutverk sem ég fékk hentaði mér mjög vel.
Ég var duglegur í að skila mér inn í vítateiginn þannig að ég skoraði mín mörk, frekar mikilvæg mörk fyrir liðið. Ég held að þjálfarinn hafi bara fundið gott hlutverk fyrir mig sem hentaði vel fyrir liðið og mig sjálfan,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.