Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, segir leikmenn og starfslið gera sér fulla grein fyrir mikilvægi leiks Íslands gegn Slóvakíu í undankeppni EM 2024 um næstu helgi.
Ísland á fyrir höndum tvo leiki á heimavelli í undankeppninni. Sá fyrri fer fram á þjóðhátíðardaginn 17. júní og þremur dögum síðar kemur Portúgal í heimsókn. Portúgal á efsta sætið víst en Ísland, Slóvakía og Bosnía renna hýru auga til annars sætisins.
„Ég held að Slóvakía sé í dag okkar helsti keppinautur. Við erum náttúrlega búnir að tapa á móti Bosníu og þurfum að spá í þeim seinna.
En sem stendur þurfum við að byrja á að klára þennan leik á móti Slóvakíu og ná í úrslit á móti þeim, því annars held ég að það verði mjög erfitt að eiga einhvern möguleika á að komast í lokakeppnina.
Við þurfum að byrja á að ná í úrslit í þessum leik. Í dag er þetta bara mikilvægasti leikurinn í undankeppninni,“ sagði Rúnar Alex í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær.
Hann kvaðst bjartsýnn á að íslenska liðinu takist að hafa betur gegn Slóvakíu.
„Já, ég er það alltaf. Ég hef alltaf trú á mínu liði og okkar þjálfarateymi. Annað væri skrítið. Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem við erum sennilega með alla okkar bestu menn.
Það vantar alltaf einhverja en ég held að þetta sé í fyrsta skipti í örugglega 2-3 ár sem við erum með nánast alla til taks. Það ætti að gefa okkur mjög mikið.“
Norðmaðurinn reyndi, Åge Hareide, er nýtekinn við sem landsliðsþjálfari.
„Ég er rosalega ánægður með hann. Það hefur verið skemmtilegt að æfa hérna með liðinu og gott að ná auka viku til að undirbúa okkur sem best.
Hann kemur rosa vel fyrir finnst mér, æfingarnar eru skipulagðar og hann kemur sínum hugmyndum vel frá sér, sem er mjög mikilvægt fyrir lið sem hefur ekki margar vikur til þess að undirbúa sig.
Það er gott að fá skýr skilaboð og gott að vera með Jóa [Jóhannes Karl Guðjónsson aðstoðarþjálfara] og Fjalar [Þorgeirsson markmannsþjálfari] honum til trausts og taks. Ég er mjög sáttur við það sem við höfum séð hingað til,“ sagði Rúnar Alex að lokum í samtali við mbl.is.