Áttum þrjú stig skilin

Oliver Heiðarsson á hér eitt af mörgum skotum ÍBV í …
Oliver Heiðarsson á hér eitt af mörgum skotum ÍBV í leiknum en Grétar Snær Gunnarsson er til varnar. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við spiluðum til sigurs, það sást langar leiðir,“ segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, en hann var vonsvikinn eftir 1:1 jafntefli liðsins á móti KR í Vesturbænum í dag, þar sem Eyjamenn áttu fleiri og mun betri færi en heimamenn.

„Við skutum í stöng og slá, vorum einn á móti markmanni trekk í trekk og fengum víti, þannig að við fengum færin til þess að klára leikinn, en stundum er þetta svona,“ segir Hermann, sem er mjög stoltur af frammistöðu sinna manna.

„Ég er ofboðslega stoltur af þessu liði, vinnuframlagi, stemmningu og baráttunni. Þegar allir eru í gírnum þá er erfitt að eiga við okkur,“ segir Hermann sem sagðist hafa sagt liði sínu inn í klefa að þeir hefðu átt stigin þrjú skilið miðað við vinnuframlagið.

Spurður hvort hér hefði verið um sanngjarnt jafntefli að ræða í ljósi þess að KR hafði komist yfir spyr Hermann á móti hvað sé sanngjarnt. „Við óðum í færum hérna, þannig að það sjá allir að heilbrigð úrslit hefðu verið þrjú til fjögur núll,“ segir Hermann.

Hann er einnig ósáttur við að mark KR hefði fengið að standa, en varnarjaxlinn Richard King, sem átti mjög góðan leik, vildi meina að brotið hefði verið á sér í aðdraganda marks heimamanna. „Þannig að það er svekkjandi að fara bara heim með eitt stig, en stoltið vegna framlagsins situr eftir.“

Aðstæðurnar góðar í dag

Hermann var spurður eftir sigurleik liðsins gegn HK í síðustu umferð hvort að Eyjamenn hötuðu ekki allir KR, og svaraði hann að sjálfsögðu játandi með glettnissvip. Hjálpaði hatrið eitthvað til við að kveikja í liðinu gegn Vesturbæingum í dag?

„Nei, nei, það er bara eins og það er,“ segir Hermann hlæjandi, en Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, gekk framhjá þegar spurningin var spurð, og þökkuðu þeir hvor öðrum mjög kumpánlega fyrir leikinn. „Þetta er stór klúbbur og það er létt að æsa menn í það. Hér eru frábærar aðstæður og flott umgjörð, en við mætum í alla leiki til að sækja þrjú stig.“

Nokkuð hefur verið rætt um aðstæðurnar á grasvöllum landsins, en í dag var mikil sól í Reykjavík, nokkuð þvert á það sem verið hefur í sumar. Hermann tekur fram að Hásteinsvöllur sé í mjög góðu standi og blæs á tal um annað. „Og völlurinn hér er mjög góður, við kvörtum ekki yfir svona,“ segir Hermann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert