Hefði getað verið annar litur á þessum spjöldum

Sindri fylgist með Höskuldi Gunnlaugssyni skalla boltann í dag.
Sindri fylgist með Höskuldi Gunnlaugssyni skalla boltann í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það var mikið fjör og sérstaklega í seinni hálfleik. Þetta var eins og borðtennis,“ sagði Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins við Breiðablik í Bestu deildinni í fótbolta í dag. Breiðablik komst í 2:0 en FH-ingar gerðu mjög vel í að ná að jafna og ná í eitt stig.

„Við byrjuðum þennan leik ekki nógu vel og mér leið ekkert allt of vel þegar þeir komust í 2:0. Við komum svo 2:1 markinu inn og við það fær leikurinn nýja sál. Eftir það stjórnum við til loka fyrri hálfleiks. Mér fannst við svo fá hættulegri færi í seinni hálfleik, þótt liðin hafi fengið svipað mörg færi,“ sagði Sindri.

Átta gul spjöld litu dagsins ljós á síðustu rúmu 20 mínútunum, eftir spjaldalausan leik fram að því. „Það var rosalegur hiti í lokin. Menn voru að takast mjög fast á og það hefði getað verið annar litur á þessum spjöldum. Ég er ánægður með Sigga að halda öllum inn á. Ef það meiðist enginn er skemmtilegra að halda öllum inn á,“ sagði markvörðurinn.

Davíð Snær Jóhannesson skoraði tvö í dag.
Davíð Snær Jóhannesson skoraði tvö í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Davíð Snær Jóhannesson, sem Sindri lék með hjá Keflavík á þeirra fyrstu árum í meistaraflokki, skoraði bæði mörk FH. Hann var aðeins að skora sitt annað og þriðja mark í efstu deild.

„Ég þekki Davíð Snær ofsalega vel. Ég var í meistaraflokki árið 2018 hjá Keflavík og þá kemur hann inn 15 ára gamall og sýnir strax gæðin sín. Ég vissi strax að hann myndi ná langt. Við erum mjög góðir félagar og hann er frábær í fótbolta.

Þegar hann gerir allt svona einfalt er hann enn þá betri. Hann veit það sjálfur. Það er fáránlegt að hann hafi ekki skorað meira. Þetta er maður sem mun raða inn mörkum fyrir okkur í sumar og í komandi árum,“ sagði Sindri um liðsfélaga sinn.

Davíð Snær í baráttunni við Oliver Sigurjónsson
Davíð Snær í baráttunni við Oliver Sigurjónsson mbl.is/Óttar Geirsson

FH er í fjórða sæti með 18 stig, en liðið var í botnbaráttu stóran hluta síðustu leiktíðar. Sindri er nokkuð ánægður með stöðuna.

„Við hefðum viljað vera með 20 stig eftir sigur í þessum leik. Síðan er alltaf hægt að horfa til baka og sjá hvar við gátum tekið önnur stig. Við reynum hins vegar að dvelja sem minnst við fortíðina.

Maður hefði viljað vinna Fylki úti og svona leiki, en heilt yfir hefðum við verið til í að vera með 20 stig. Við erum með 18, sem er ekki alslæmt og við erum nálægt Blikunum,“ sagði Sindri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert