Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, skóf ekkert af því að lið sitt hefði verið heppið að fara heim með jafntefli gegn Eyjamönnum, en leikurinn fór 1:1, þar sem Eyjamenn jöfnuðu úr víti þegar komið var fram yfir uppbótartíma.
Rúnar segir að aðstæður hafi verið erfiðar og lélegar, og að sér hafi þótt lítill fótbolti spilaður. „Við vorum bara mjög lélegir. Við erum heppnir að fá með okkur stig, Eyjamenn áttu að vinna þennan leik, og við getum ekki annað en þakkað þeirra klaufaskap fyrir að við fáum eitt stig út úr þessu.“
Rúnar segir að bikarleikurinn um síðustu helgi hafi setið í mönnum og þeir hafi verið þungir og þreyttir. „Við reyndum að gera breytingar bæði fyrir leik og í hálfleik, en það var kannski ekki nóg og orkan ekki til staðar og við pínu daufir,“ segir Rúnar.
Hann segir engu að síður það vera svekkjandi fyrst að liðið var komið yfir að ekki hafi tekist að halda forystunni til enda. „Við hefðum kannski getað stolið þessu þá,“segir Rúnar.
Hann bætir við að nú komi kærkomið tveggja vikna landsleikjahlé, sem leyfi mönnum að hlaða batteríin fyrir næstu átök. „Þetta er búið að vera mjög hratt mót, það er nánast hálfnað og við erum varla farnir að sjá sólina í Reykjavík og grasvellirnir eru sérstaklega lélegir. En það þarf að spila þessa leiki þegar þeir spilast, við getum ekki stjórnað veðurguðunum.“
Rúnar tekur fram að hann hafi ekki séð hvað gerðist í hvorugt skipti þegar Erlendur benti á vítapunkt KR-inga.
Simen Lillevik Kjellevold átti mjög góðan leik í dag, en hann fékk á sig nokkra gagnrýni í upphafi mótsins. Rúnar segir að leikur Simen hafi verið mjög stígandi að undanförnu. „Hann er auðvitað nýr í þessu landi og nýr í þessari deild, er að kynnast nýju fólki, nýjum aðstæðum og jafnvel nýjum fótbolta,“ segir Rúnar sem tekur fram að sér finnist hann vera mjög góður markmaður.
„Auðvitað getur hann eins og allir markmenn átt einhverja veikleika eða slæma leiki og gefið mörk,“ segir Rúnar en bætir við að líklega hafi allir markmenn deildarinnar gefið tvö til þrjú mörk. „En það er bara meira tekið eftir því þegar það er útlenskur markmaður,“ segir Rúnar að lokum.