KA tók á móti Fylki í Bestu-deild karla í dag. Leikurinn var í 11. umferð deildarinnar en þó tólfti leikur KA. Var þetta áttundi heimaleikur KA í deildinni.
Fyrir leik var KA með 14 stig en Fylkir með 11. KA hafði aðeins skorað í fimm deildarleikjum af ellefu en þeir bættu hlutfallið sitt í dag með því að skora tvisvar. Leiknum lauk 2:1 fyrir KA en Fylkir setti mikla pressu á KA í lokin og hvort lið fékk dauðafæri á lokakaflanum, fyrst KA til að gera út um leikinn en svo Fylkir til að jafna.
Fyrri hálfleikurinn í dag var með rólegra móti og fáir góðir spilkaflar litu dagsins ljós. Fylkismenn voru meira ógnandi framan af og var Þórður Gunnar Hafþórsson ávallt hættulegur á hægri kantinum. KA-menn fengu sín upphlaup og í þrígang skapaðist hætta við mark Fylkis. Dusan Brkovic skallaði í þverslána eftir hornspyrnu og svo átti Ásgeir Sigurgeirsson skot sem var varið.
Eina augnakonfekt hálfleiksins var mark KA. Heimamenn náðu að spila sig vel í gegn um miðjuna og svo sprengdi Hallgrímur Mar allt upp á gátt með frábærri sendingu upp hægri kantinn. Þorri Mar fékk boltann og lagði hann inn á Svein Margeir í vítateignum. Dalvíkingurinn tók vel á móti boltanum og þrykkti honum upp í skeytin fjær. Glæsilegt mark og 1:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var mun fjörugri en sá fyrri og það voru Fylkismenn sem héldu áfram að ógna meira. KA átti nokkur góð færi og Harley Willard bætti við marki um miðjan hálfleikinn eftir snarpa sókn. Eftir þetta mark fór Fylkir að sækja enn meira og lá mark í loftinu. Kristijan Jajalo var vel vakandi í marki KA og hélt sínum mönnum á floti lengi vel. Loks skoraði þó Fylkir þegar nokkrar mínútur voru eftir. Benedikt Daríus Garðarsson smellti boltanum í mark eftir horn.
Æstust nú leikar og reyndu Fylkismenn allt til að jafna leikinn. Hvort lið fékk dauðafæri á lokamínútunum og í raun ótrúlegt að ekki hafi komið fleiri mörk. KA hékk á þessu eins og hundur á roði og landaði 2:1 sigri. Mikilvæg þrjú stig til Norðanmanna og mikill léttir fyrir þá að hafa ekki glutrað leiknum niður.
KA er þá komið með 17 stig og búið að koma sér aðeins frá miðjupakkanum. Fylkir er enn með sín 11 stig og er hreinlega í botnbaráttu þar sem mörg lið eru í einum hnapp.
Eins og áður er getið þá var Fylkir töluvert meira í sókn en hvort lið fékk álíka mörg færi og lágu úrslitin einfaldlega í færanýtingunni. Óskar Borgþórsson var mjög góður í liði Fylkis og skapaði hann nánast alltaf hættu þegar hann fékk boltann. Framherjarnir tveir að vestan, þeir Þórður Gunnar og Pétur Bjarnason, voru sprækir en óheppnir í færunum sínum.
Besti maður KA var klárlega Kristijan Jajalo í markinu. Sveinn Margeir var sprækur á miðjunni og Þorri Mar hættulegur á hægri vængnum. Hallgrímur Mar Steingrímsson átti fína spretti og var klaufi að hafa ekki klárað leikinn í stöðunni 2:1 þegar hann komst einn í gegn. Ólafur Kristófer Helgason varði frá honum með tilþrifum.
M-einkunnagjöf leiksins og einkunn dómara verða í mánudagsblaði Morgunblaðsins