„Þetta var auðvitað frábært tímabil. Menn vissu kannski ekki alveg hverju mátti búast við í byrjun. Það var mikið af breytingum, mikið af leikmönnum sem fóru, mikið af leikmönnum sem komu og nýr þjálfari,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Burnley á Englandi og íslenska landsliðsins, í samtali við Morgunblaðið skömmu fyrir landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í gær.
Þar ræddi hann nýafstaðið tímabil með Burnley, þar sem liðið vann ensku B-deildina með gífurlegum yfirburðum og tryggði sér þannig sæti í ensku úrvalsdeildinni að nýju.
„Í byrjun misstum við einhverja leiki niður í jafntefli og þá vissi maður ekki alveg hvað væri að fara að gerast. En svo small þetta allt saman og við fórum á svaka skrið, unnum hvern leikinn á fætur öðrum og sýndum að við værum langbesta liðið í þessari deild,“ hélt Jóhann áfram.
Hann var að ljúka sínu sjöunda tímabili með Burnley og skrifaði í janúar síðastliðnum undir nýjan eins árs samning með möguleika á árs framlengingu. Tekur Jóhann því slaginn með liðinu í úrvalsdeildinni á næsta tímabili, sem verður hans sjöunda í deildinni og það áttunda með Burnley.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.