KR og ÍBV gerðu með sér 1:1 jafntefli þegar liðin mættust í elleftu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í Vesturbænum í dag. KR er eftir leikinn í sjöunda sæti deildarinnar með tólf stig en Fram á enn eftir sinn leik. ÍBV fór upp að hlið Stjörnunnar með tíu stig, en er áfram í 11. sæti á markatölu.
Leikurinn fór fjörlega af stað, en það voru gestirnir úr Vestmannaeyjum sem náðu frumkvæðinu snemma. Fengu þeir meðal annars fjórar hornspyrnur strax í upphafi leiks, og voru framan af fyrri hálfleik mun frískari í öllum sínum aðgerðum en KR-ingar. Heimamenn áttu þó sína spretti, einkum er leið á hálfleikinn, og fengu sjálfir einar fimm hornspyrnur í röð þegar hálftími var liðinn af leiknum.
Hornspyrnur telja þó lítið, og mörkin sjálf vantaði sárlega. Eyjamenn komust næst því að brjóta ísinn á 21. mínútu þegar vængmaðurinn spræki Oliver Heiðarsson komst einn í gegn á móti Simen Lillevik Kjellevold en skaut boltanum í utanverð samskeytin. Staðan var því markalaus í hálfleik, þrátt fyrir að bæði lið hefðu átt ágæta tilburði og tilraunir til þess að skora.
Eyjamenn komu hins vegar mun sprækari út í síðari hálfleik og voru nærri búnir að skora í tvígang á 49. og 50. mínútu, en Simen stóð sig mjög vel í marki KR-inga. Ægir Jarl Jónasson átti svo gott skot fyrir KR-inga strax á eftir, en rétt framhjá stönginni.
Það dróg til tíðinda á 59. mínútu en þá fékk Grétar Snær Gunnarsson, bakvörður KR-inga boltann í höndina á sér innan teigs, og Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, var ekki lengi að benda á punktinn. Sverrir Páll Hjaltested steig á punktinn, en Simen varði spyrnu hans vel, sem og frákastið sem Eyjamenn fengu.
Einungis þremur mínútum síðar skaut Oliver Heiðarsson i stöngina í annað sinn í leiknum eftir að hafa sigrað Simen í markinu, og eiginlega ótrúlegt að gestirnir væru ekki komnir yfir.
KR-ingar létu ekki deigan síga, en þeir fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Eyjamanna á 68. mínútu. Hinn 18 ára gamli Jóhannes Kristinn Bjarnason tók spyrnuna og fleytti henni inn á teiginn, þar sem Sigurður Bjartur Hallsson kom og skallaði boltann framhjá Smit í markinu, og var það þvert á gang seinni hálfleiksins.
Eyjamenn reyndu allt hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn í kjölfarið, en leikurinn virtist vera að renna þeim úr höndum þegar Erlendur Eiríksson flautaði aftur á brot í teig KR-inga. Nú tók Felix Örn Friðriksson spyrnuna og sendi boltann í hitt hornið, að þessu sinni framhjá Simen í markinu.
Þrjár mínútur lifðu enn af uppbótartíma og voru liðin greinilega ekki sátt með að fá einungis eitt stig og reyndu að sækja öll þrjú. Eyjamönnum veitti þó betur í þeirri samkeppni og fengu þeir tvö-þrjú mjög góð tækifæri til þess að ná öllum stigunum þremur. Líklega hefðu KR-ingar lítið getað sagt hefði það tekist, en engu að síður var það svekkjandi fyrir þá að hafa misst unninn leik úr höndunum, þrátt fyrir að hafa verið lakara liðið í síðari hálfleik.
Eyjamenn munu eflaust naga sig í gegnum handarbökin fyrir að nýta ekki færin sín, og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Spili þeir áfram eins og þeir gerðu í dag verða þeir öllum liðum deildarinnar skeinuhættur andstæðingur.
M-einkunnagjöf leiksins og einkunn dómara verða í mánudagsblaði Morgunblaðsins