Lið KA komst aftur á sigurbraut í Bestu-deild karla þegar það lagði Fylki 2:1 á Greifavellinum á Akureyri í dag. Akureyringar eru því komnir með 17 stig í deildinni og gátu fagnað öðrum sigri sínum í vikunni en KA lagði Grindavík 2:1 í Mjólkurbikarnum á þriðjudag.
Þjálfarinn Hallgrímur Jónasson lítur björtum augum á framhaldið þrátt fyrir að KA spili ekki heimaleik í deildinni fyrr en eftir 50 daga.
Sæll Haddi. Nú eru komnir tveir góðir sigrar á fimm dögum og þrír í síðustu fjórum leikjum. Þessi var dálítið tæpur hjá ykkur.
„Er það ekki alltaf svoleiðis þegar maður vinnur með einu marki. Við vorum 2:0 yfir sanngjarnt og vorum búnir að eiga skalla í slá. Við hefðum getað verið með meira forskot. Mér finnst svo Fylkismenn komast óþarflega mikið inn í leikinn. Við erum hérna á heimavelli. Á okkar grasi þá eigum við að vera sterkari og halda betur í boltann, ekki hleypa þeim á fulla ferð. Burtséð frá því þá var markið þeirra skorað á meðan Fylkismaður liggur ofan á markverðinum okkar. Við fáum svo dauðafæri eftir það til að ganga frá leiknum. Við fáum svo sannarlega færin og það er ég ánægður með. Við viljum koma ofar á völlinn með liðið og skapa fleiri færi. Við skorum tvö mörk í dag en hefðum getað skorað fjögur, fimm. Ég er bara gríðarlega ánægður með þennan sigur.“
Nú kemur smá hlé í deildinni. Þið hafið spilað mjög þétt og fleiri leiki en nokkuð annað lið, ef Lengjubikarinn er tekinn með. Er ekki kærkomið að fá að blása aðeins.
„Jú það er það. Við og toppliðin þrjú hafa spilað flesta leikina og svo er bikarkeppnin líka. Þetta eru fimmtán leikur á átta og hálfri viku. Sem betur fer hefur hópurinn haldist nokkuð heill og engin alvarleg meiðsli. Það er svolítið athyglisverð staðreynd að í fyrra þá vorum við með 18 stig eftir sama leikjafjölda en erum núna með 17 og erum í 5. sæti bæði árin. Vissulega hefðum við viljað gera betur í ár en við erum þó með ágætis stigasöfnun, erum komnir í undanúrslit í bikar, sem er frábært. Það er margt spennandi fram undan og núna gefst smá tími til að fara dýpra í nokkur atriði, sem þarf að bæta. Slíkt getur verið erfitt þegar það eru tveir leikir í viku, átta vikur í röð.“
Svo er þetta með heimaleikina. Þið eruð búnir með átta heimaleiki en bara fjóra útileiki. Er þá ekki einhver skekkja í töflunni eða ætlið þið að gera eins og undanfarin ár, að vera jafn góðir heima og að heiman?
„Við ætlum bara að keyra á það. Það eru nokkrir útileikir fram undan. Þeir áttu að vera fjórir en það er búið að fresta FH-leiknum. Þetta er allt á grasi. Við ætlum að safna stigum þar líka.“
Hvar ætlið þið að undirbúa ykkur fyrir grasleikina? Grasvellirnir fyrir sunnan eru nú eitthvað að skána og þið virðist ætla að losna við versta ástandið.
„Við finnum kannski einhverja góða velli hér í bænum en ef þeir eru eitthvað slæmir þá bara æfum við áfram á gervigrasinu. Við höfum staðið okkur vel á grasi síðustu ár og nú vona ég bara að stemningin sem hefur verið byggð upp hjá áhorfendum í síðustu heimaleikjum fylgi með á útileikina. Nú bara tökum við okkur smá frí, hugsum lítið um fótbolta og komum endurnærðir í næstu törn. Það er allt að fara í gang núna og það styttist í fyrsta Evrópuleik KA í 20 ár.“
Það styttist í að það verði dregið. Nú fer að koma í ljós hvaða liði þið munuð mæta. Vitið þið eitthvað hvað er í boði?
„Það eru nokkur lið sem við getum mætt í 1. umferðinni og þá er búið að svæðaskipta Evrópu. Þetta verða lið frá Írland eða einhver lið af Norðurlöndunum. Þetta verða einhver sex lið sem við gætum mætt þegar allt er orðið klárt.“
Þú endar þá kannski í Danmörku þar sem þú þekkir hverja þúfu.
„Midtjylland var einmitt að tryggja sér rétt til þátttöku í okkar keppni en ég veit ekkert hvort þeir spili í 1. umferðinni. Ég spilaði einmitt gegn þeim með Keflavík 2006. Við viljum bara fá góðan leik og viljum komast áfram í næstu umferð. Það er gríðarlegur getumunur á liðunum í þessari keppni og erfitt að segja hversu langt þú ætlar“ sagði Hallgrímur að lokum.
Það er greinilega fiðringur og spenna í KA-mönnum enda langt síðan þeir voru síðast í Evrópukeppni. Þess má geta að KA hefur spilað fjóra leiki í Evrópukeppnum. Akureyringar unnu einn þeirra, gerðu tvö jafntefli og töpuðu einum leik.