Valsarinn mikli Birkir Már Sævarsson var að vonum sáttur eftir sannfærandi 5:0-útisigur Valsliðsins á HK í Bestu deildinni í fótbolta í Kórnum í Kópavogi í dag.
„Við vorum bara góðir mest allan leikinn. Þeir voru nokkuð sprækir í byrjun og hefðu getað skorað, en við erum með mjög góðan markmann sem bjargaði okkur tvisvar þarna. Svo skoruðum við fyrsta markið og eftir það fannst mér við stjórna leiknum frá A-Ö,“ sagði Birkir um leikinn.
Sóknarmenn Vals leika á als oddi þessa dagana með Tryggvi Hrafn Haraldsson fremstan í flokki. Birkir vill meina að þegar liðið spilar vel sem heild sé erfitt að stöðva það.
„Við erum með ótrúleg gæði fram á við þannig að við getum alltaf refsað liðum þar. Valsliðið er að spila vel og þegar það er raunin er auðvelt fyrir strákana frammi að fá færi og þeir eru svo sannarlega að nýta þau, í flestum leikjum, og svo er það okkar verkefni að halda hreinu og þá vinnum við flesta leiki nokkuð þægilega.“
Valur er í öðru sæti með 26 stig, tveimur frá Víkingi úr Reykjavík, sem er að vinna Fram þessa stundina í Fossvoginum, 3:1, og getur með sigri aukið forskotið í fimm stig. Birkir lítur á tímabilið sem mjög gott hingað til.
„Þetta er búið að vera að mestu leyti mög gott. Það kom þarna vika eða ein og hálf þar sem við vorum í smá brasi með að skora. En mér finnst við hafa fundið lausnir á því sem við vorum í brasi með í þessum nokkru leikjum sem komu þarna á milli. En heilt yfir er ég mjög sáttur með tímabilið. Við erum að skora fullt af mörkum en við þurfum að finna lausnir á því þegar lið leggja rútunni fyrir framan okkur, og vonandi er það bara komið núna.“
Gaman að gera eitthvað annað en fara að upp á hótelherbergi
Eins og flestum er kunnugt átti Birkir Már afar farsælan landsliðsferil með íslenska landsliðinu en hann hætti árið 2021. Birkir spilaði yfir 100 landsleiki og var meginstoð í liði Íslands á EM 2016 og HM 2018. Hann segir það samt vera æðislegt að geta nú verið í fríi í landsleikjahléinu, en að hann mæti að sjálfsögðu á landsleiki Íslands gegn Slóvakíu og Portúgal.
„Það er æðislegt að geta farið í frí núna. Ég fæ nokkurra daga frí og get verið með fjölskyldunni og gert eitthvað annað en að fara bara upp á hótelbergi. Svo fer ég bara á leikina eins og restin af landinu,“ sagði Birkir að lokum.