Andlausir og drullulélegir

HK-ingurinn Arnþór Ari Atlason og Valsarinn Elfar Freyr Helgason berjast …
HK-ingurinn Arnþór Ari Atlason og Valsarinn Elfar Freyr Helgason berjast um knöttinn í dag. Ottar Geirsson

„Við gerðum bara eitthvað allt annað,“ sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, í samtali við mbl.is eftir 5:0-skell gegn Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í Kórnum í Kópavogi í dag. 

„Við komum bara andlausir og drullulélegir út úr hálfleiknum. Á móti Val geturðu ekki spilað í fimm mínútur eins og við gerðum í 15. Þú færð ekki á þig þrjú mörk á fyrstu 15. mínútum seinni hálfleiks og kemst upp með það, það er alveg á hreinu,“ sagði Ómar um hvað fór úrskeiðis.

HK-ingar sýndu ágætis frammistöðu í fyrri hálfleik og var Ómar sammála því. Hann segir að síðari hálfleikurinn hafi verið enn meira svekkjandi útaf því.

„Það gerir þetta ennþá meira svekkjandi. Við verjumst á löngum köflum mjög vel í fyrri hálfleik og spilum vel okkar á milli. Við sköpum okkur færi sem við eigum að geta skorað úr. Seinni hálfleikurinn var svo mikil vonbrigði miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist.“

Tímabilið byrjaði ansi vel hjá HK-ingum en undanfarið hefur aðeins fjarað úr liðinu. Ómar vill meina að hann og hans lið þurfi að vinna úr því, og muni gera svo í landsleikjahléinu. 

„Við þurfum að byrja á því að núllstilla okkur og hvíla aðeins þessa næstu daga. Svo vinnum við bara saman að því að gera betur. En eins og ég segi þá fannst mér fyrri hálfleikurinn hérna áðan betri heldur en allt á móti FH og ÍBV. Þannig okkur leið eins og við værum eitthvað að rétta úr kútnum eftir erfiðar síðustu umferðir. En svo gerðum við bara eitthvað allt annað í seinni hálfleik.“

Það er komið landsleikjahlé í Bestu deild karla og viðurkenndi Ómar að það væri kærkomið.

„Jájá það er það, sérstaklega eftir svona leik. En já aftur, það eru ansi margir leikmenn í HK-liðinu sem þurfa á smá fríi að halda,“ sagði Ómar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert