Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar átti fínan leik í vörninni í 1:1 jafntefli á móti Keflavík á útivelli í Bestu deild karla í fótbolta suður með sjó. Keflavík komst yfir á 53. mínútu en Stjörnumenn jöfnuðu á 78. mínútu.
Guðmundur hafði þetta að segja um leikinn: „Það er súrt að ná ekki að vinna leikinn. Þetta verður erfiður leikur þegar við lendum undir. Keflvíkingar pakka í vörn með fimm manna varnarlínu í erfiðum kartöflugarði og þá er erfitt að sækja þegar við lendum undir. Það er svekkjandi að ná ekki þremur stigum.“
Stjarnan spilaði í síðustu viku bikarleik gegn KR á Meistaravöllum sem fór í framlengingu og tapaðist.
Aðspurður um hvort þessi langi 120 mínútna leikur hefði setið í leikmönnum sagði Guðmundur: „Ég veit það ekki, gæti vel verið. Við fengum ágætan tíma til að jafna okkur, við þurfum ekkert að nota það sem einhverja afsökun," sagði Guðmundur að lokum við blaðamann mbl.is.