Keflavík og Stjarnan skildu jöfn, 1:1, í elleftu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Keflavíkurvelli í kvöld.
Stjarnan fór upp í 8. sæti deildarinnar með 11 stig, upp fyrir Fram og Fylki á markatölu, en Keflavík er áfram í tólfta og neðsta sætinu, nú með sjö stig.
Magnús Þór Magnússon fyrirliði Keflavíkur kom sínum mönnum yfir á 53. mínútu en Eggert Aron Guðmundsson jafnaði fyrir Stjörnuna á 78. mínútu.
Liðin skiptust á að sækja án þess að eiga hættuleg færi. Varnir báðum megin voru vel skipulagðar og sóknarmönnum beggja liða haldið í skefjum.
Keflvíkingar reyndu að nýta sér meðvind í fyrri hálfleik en gekk samt illa að temja boltann þegar hann var kominn upp vænginn. Vængbakvörðurinn efnilegi Axel Ingi Jóhannesson var sprækur í fyrri hálfleik í liði Keflavíkur.
Það gerðist fátt markvert þangað til á 26.mínútu þegar Emil Atlason, sóknarmaður Stjörnunnar, átti skot á lofti úr teignum en boltinn fór yfir markið eftir sendingu frá Eggerti Aroni Guðmundssyni. Þetta var hörkufæri.
Staðan var 0:0 í leikhléi.
Í seinni hálfleik dró svo til tíðinda þegar Magnús Þór Magnússon fyrirliði Keflavíkur skoraði flott mark fyrir heimamenn á 53. mínútu. Sindri Snær Magnússon fékk boltann hægra megin utan við teig Stjörnunnar og lék á bæði Guðmund Baldvin og Eggert Aron og kom boltanum inn í teig þar sem Magnús Páll kom boltanum snyrtilega fram hjá Árna Snæ Ólafssyni í marki Stjörnunnar. 1:0 fyrir heimamenn.
Þess má geta að þetta er aðeins annað markið sem Keflvíkingar hafa skorað á heimavelli í sumar.
Stjarnan gerði fljótlega þrefalda skiptingu og Garðbæingar ætluðu greinilega alls ekki að fara tómhentir heim, enda bætti heldur betur í sóknarþungann.
Á 69. mínútu átti varamaður Stjörnunnar, hinn 17 ára gamli Kjartan Már Kjartansson, skot fyrir utan teig sem endaði ofan á þverslánni og þaðan yfir.
Á móti freistuðust heimamenn að ná skyndisóknum þar sem Dagur Ingi Valsson var duglegur að koma sér í boltann.
Það var svo á 78. mínútu sem Eggert Aron Guðmundsson, leikmaður Stjörnunnar, jafnaði leikinn með hörkuskoti úr teignum. Daníel Laxdal átti sendingu frá vinstri vængnum inn í teig, Emil Atlason tók boltann niður og kom honum á Eggert Aron sem kláraði vel. Þetta var hans annað mark í deildinni í sumar og staðan orðin 1:1.
Bæði lið reyndu að koma sér í færi til að ná inn sigurmarki en allt kom fyrir ekki og liðin skipta stigunum á milli sín og niðurstaðan var 1:1 jafntefli.