Una Móeiður Hlynsdóttir kom eins og ferskur andblær inn í lið Þórs/KA í sínum fyrsta leik í byrjunarliði í Bestu deildinni í knattspyrnu. Hún var ekki búin að vera inni á vellinum í tíu mínútur þegar hún hafði lagt boltann í mark Selfyssinga, sem var andstæðingur dagsins.
Nokkur vandræðagangur hefur verið á liði Þórs/KA en liðið hafði tapað fjórum síðustu leikjum sínum og hafði ekki skorað mark í þeim þremur síðustu. Una Móeiður setti tóninn fyrir norðankonur en þær unnu leikinn 3:0.
Vitaskuld var Una Móeiður fengin í viðtal eftir leik og var hún sæl og glöð.
Til hamingju með leikinn og markið.Þú ert búin að vera að glíma við meiðsli undanfarið en hefur verið að koma inn hægt og bítandi. Tvo síðustu leiki varstu að koma inn á af bekknum en núna var það bara byrjunarliðið. Það má segja að þú hafir komið til leiks með látum.
„Ætli það ekki bara. Það er gott að vera komin til baka eftir að hafa verið úr leik í nokkrar vikur.“
Kom það þér á óvart að hafa byrjað þennan leik?
„Svona örlítið en það var spennandi að fá loks að byrja. Það var líka léttir að klára fyrsta færið. Það létti mikið á mér að skora markið. Við spiluðum leikinn nokkuð vel fyrir utan fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik. Selfoss lá dálítið á okkur en eftir að við skoruðum þriðja markið þá náðum við að slaka á spennunni og sigldum þessu bara í höfn, kláruðum þetta bara.“
Það var 2:0 í hálfleik og í raun spurning hvar þriðja markið myndi lenda. Selfoss var að hóta marki.
„En þá kom hornið, sko. Og þriðja mark okkar upp úr því.“
Nú er kominn hjá þér einn leikur í byrjunarliði og eitt mark. Sérðu fyrir þér að gera þetta reglulega?
„Það er markmiðið, já. Það er alveg keppni um þessa stöðu í liðinu. Ég hef alltaf verið frammi og þekki þær stöður vel. Maður er að skipta í að vera vinstra megin eða í miðjunni. Vonandi heldur þetta áfram hjá mér.“
Það var nú enginn aukvisi sem þú fékkst að glíma við, sjálf Sif Atladóttir. Þú varst ekkert að gefa henni neitt og alls ekki feimin.
„Þetta var bara áskorun fyrir mig. Það var líka gaman að rífast aðeins við hana. En hún var almennileg strax eftir leik“ sagði hin bráðskemmtilegi og spennandi leikmaður að lokum.