Mörkin eru til staðar á æfingum

Björn Sigurbjörnsson þjálfari Selfyssinga fylgist með leiknum á Akureyri í …
Björn Sigurbjörnsson þjálfari Selfyssinga fylgist með leiknum á Akureyri í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Kvennalið Selfoss í Bestu-deildinni í fótbolta er í bullandi vandræðum þessa dagana. Liðið hefur nú spilað fjóra leiki í röð án þess að skora mark og án þess að ná í stig.

Liðið er njörvað niður í botnsæti deildarinnar. Selfoss hélt í dag til Akureyrar og spilaði við Þór/KA í fyrsta leik 8. umferðarinnar. Reyndust heimakonur töluvert sterkari í dag og lauk leik með 3:0-sigri þeirra. Tvö fyrstu mörkin komu á 10. og 13. mínútu og gerðu þau Selfyssingum strax erfiðara fyrir.

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, hafði þetta að segja eftir leik:

„Þessi tvö mörk í byrjun gerðu nánast úti um þennan leik. Líka erfitt að við eigum síðustu snertingu  þegar boltinn berst á fætur leikmanna Þórs/KA, sem klára sína sénsa mjög vel. Við flikkum boltanum með skalla beint á andstæðinginn og það gefur tvö mörk.“

Vindurinn truflaði nú eitthvað í þessum skallaboltum.

„Já eitthvað en mér finnst meira máli skipta að hafa betri samskipti á milli leikmanna, að vera duglegri að tala við hverja aðra og hjálpa þannig með ákvarðanir.“

Lið þitt náði að jafna sig þokkalega eftir þessi högg og komst inn í hálfleikinn með 0:2 stöðu. Svo var bara að sjá á ykkur í byrjun seinni hálfleiks að það væri mark á leiðinni. Það kom hins vegar öfugu megin og gerði bara út um leikinn. Það skipti öllu hvoru megin þetta þriðja mark kom.

„Þetta er þriðji leikurinn í röð þar sem við komum að miklum krafti út í seinni hálfleik. Ég þyrfti að telja leikmönnum trú um það í byrjun leikja að við séum að spila seinni hálfleikinn“ bætti Björn við í léttum tón.

„Mér fannst töluverð batamerki á leik okkar þótt tölurnar segi kannski annað. Þriðja markið þeirra breytti þessu aftur og við réðum ekki við það. Mínir leikmenn vilja nú meina að það hefði átt að dæma hendi á Þór/KA inni í teig í stöðunni 2:0. Ég veit ekki með það en það væri sárt ef við hefðum getað fengið víti í þeirri stöðu. Það hefði getað hjálpað okkur og breytt miklu.

Mér finnst við vera að þokast nær því að skora markið sem við höfum beðið allt of lengi eftir. Mörkin eru til staðar á æfingum. Við þurfum að geta fært þau út í sjálfa leikina“ sagði Björn að lokum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert