Nýliðarnir úr Garðabæ eru efstir

Jón Arnar Barðdal skoraði tvö mörk fyrir KFG gegn Haukum …
Jón Arnar Barðdal skoraði tvö mörk fyrir KFG gegn Haukum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KFG úr Garðabæ, sem er nýliði í 2. deild karla í fótbolta er óvænt komið á topp deildarinnar eftir útisigur á Haukum, 3:1, í sjöundu umferð deildarinnar í dag.

KFG átti að leika í 3. deild í ár en færðist upp þegar Kórdrengir hættu keppni í 1. deildinni. Það hefur gengið vonum framan því Garðabæjarliðið hefur unnið fimm af fyrstu sjö leikjum sínum á tímabilinu og er með 15 stig á toppnum.

Jón Arnar Barðdal skoraði tvö fyrstu mörkin í fyrri hálfleiknum. Fannar Óli Friðleifsson minnkaði muninn fyrir Hauka í seinni hálfleik áður en Ólafur Bjarni Hákonarson gerði út um leikinn með þriðja markinu. Haukar eru með átta stig í sjötta sæti deildarinnar eftir þrjá tapleiki í röð.

Þróttur úr Vogum missti efsta sætið með jafntefli á heimavelli, 2:2, gegn Dalvík/Reyni. Adam Árni Andersen og Anton Freyr Hauks skoruðu fyrir Þrótt en Þröstur Mikael Jónasson og Borja López fyrir Dalvíkinga. López jafnaði metin í uppbótartíma leiksins. Þróttur er með 14 stig í öðru sæti en Dalvík/Reynir er með sjö stig í áttunda sæti.

ÍR fór upp í þriðja sætið með því að vinna KV, 2:0, á gervigrasvelli KR í Vesturbænum. Það var dramatískur sigur því mörkin frá Ágústi Unnari Kristinssyni og Braga Karli Bjarkasyni komu bæði í uppbótartíma leiksins. ÍR er með 13 stig í þriðja sæti en KV er með sjö stig í 10. sæti.

KFA er enn ósigrað og vann Víking frá Ólafsvík, 3:1, á Reyðarfirði en liðin eru bæði með 13 stig í fjórða og fimmta sæti. Zvonimir Blaic skoraði fyrsta mark Austfirðinga, Mikael Hrafn Helgason jafnaði seint í leiknum fyrir Ólafsvíkinga en þá skoraði Vice Kendes tvö mörk með stuttu millibili og tryggði KFA sigurinn.

KF komst af botninum með því að sigra Hött/Huginn, 3:1, í Ólafsfirði. KF er með sex stig í 11. sætinu en Höttur/Huginn átta stig í sjöunda sætinu. Sævar Þór Fylkisson skoraði tvö marka KF og Dagbjartur Búi Davíðsson eitt en Almar Daði Jónsson skoraði fyrir Hött/Hugin.

Völsungur lagði Sindra á dramatískan hátt á Hornafirði, 1:0, þar sem Arnar Pálmi Kristjánsson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Völsungur fór upp í níunda sætið með sjö stig en Sindri situr nú á botninum með fimm stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert