Þetta var skrítið

Hlynur Atli, lengst til hægri, horfir á tvo Víkinga hoppa …
Hlynur Atli, lengst til hægri, horfir á tvo Víkinga hoppa upp í bolta. Gunnar Vatnhamar er steinhissa. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var skrítið,“ sagði Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Fram, í samtali við mbl.is eftir 1:3-tap liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík á útivelli í Bestu deild karla í fótbolta.

Víkingar voru með 3:1-forskot í hálfleik, þrátt fyrir að ná ekki að skapa sér mikið af færum. Þeir nýttu hins vegar þau fáu færi sem liðið fékk afar vel.

„Það var klaufalegt hjá okkur að fá þessi mörk á okkur. Skipulagið okkar hélt að mestu en svo náðu þeir að sækja hratt á okkur og fá mörk upp úr því. Heilt yfir fannst mér samt góður bragur á okkur.

Við hefðum samt mátt vera beittari fram á við og halda betur í boltann. Þeir voru ekki að fá mikið af opnum færum og mér fannst þetta vera í góðu jafnvægi þangað til þeir fá mörk upp úr engu. Það voru einstaka moment sem klikkuðu hjá okkur,“ sagði Hlynur um leikinn.

Framarar voru ósáttir við annað mark Víkings og töldu að um brot hafi verið að ræða. „Mér finnst eins og það sé ýtt í bakið á Brynjari sem endar með að hann er fyrir Óla í sínu úthlaupi og missir hann. Ég get ekki dæmt um það núna.“

Eftir leikinn er Fram í níunda sæti, aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti.

„Það er stutt á milli í þessu. Við hefðum farið upp í efri hlutann með sigri, en mér finnst við ekki búnir að vera neitt svakalega flottir. Það er samt búið að vera stígandi hjá okkur og við horfum á það. Við erum á fínum stað núna, en hefðum viljað taka þrjú stig með okkur inn í hléið,“ sagði Hlynur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert